Innlent

Braut sér leið inn og hreytti ó­kvæðis­orðum í eigin­konuna fyrir framan börnin

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn sótti ekki þing þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri í sumar.
Maðurinn sótti ekki þing þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri í sumar. Vísir/Kolbeinn Tumi

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann fyrir brot á barnaverndarlögum og stórfelldar ærumeiðingar gegn maka fyrir að hafa brotið sér leið inn í íbúð á Akureyri og hreytt ókvæðisorðum í eiginkonu sína fyrir framan börn þeirra.

Maðurinn var dæmdur til að sæta þrjátíu daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að tveimur árum liðnum, haldi hann almennt skilorð.

Í ákæru kom fram að maðurinn hafi brotið sér leið inn á heimili sitt á Akureyri í apríl 2022 með því að berja stóru grjóti á útidyrahurð íbúðarinnar og síðan brotið glugga í útidyrahurðinni. Hann hafi svo brotið glugga í forstofuhurð og ruðst inn í svefnherbergi þar sem eiginkona hans hafði leitað skjóls ásamt börnum þeirra og dóttur sinni og móður.

Þegar maðurinn hafði ruðst inn í herbergið skipaði hann konu sinni, tengdamóður og öllum börnum að yfirgefa íbúðina í snarhasti „þar sem hann væri kominn með nóg af þeim og gaf þeim klukkutíma til að yfirgefa íbúðina.“ Hann hafi svo kallað eiginkonu sína „helvítis hóru“, „tussu“ og „fokking geðveika“ fyrir framan börnin.

Blóð slettist á börn og aðra

Í ákæru segir ennfremur að við það að brjóta sér leið inn úr forstofunni hafi maðurinn skorist illa á hendi þannig að blóð hafi lekið úr hendi hans á muni og gólf í íbúðinni þannig að slettist á börnin og aðra viðstadda.

Með atferlinu og orðum sínum hafi maðurinn sýnt börnum sínum og stjúpbarni „yfirgang, vanvirðandi, ruddalegt og ósiðlegt athæfi og [sett] fram stórfelldar ærumeiðingar gegn maka sínum með tilgreindum orðum og fyrirskipunum fyrir framan börnin og móður brotaþola“.

Maðurinn var sömuleiðis ákærður fyrir vörslu á um tveggja gramma skammti af marijúana.

Sótti ekki þing

Maðurinn sótti ekki þing þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall, en dómari mat gögn í málinu næg til sakfellingar. 

Sakaferill mannsins hafði ekki áhrif við ákvörðun refsingar í málinu, sem dómari mat hæfileg þrjátíu daga fangelsi. Fullnusta refsingarinnar var hins vegar frestað og skal hún niður falla, haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×