Innlent

Úr­skurðaður í gæslu­varð­hald í tengslum við tvö vopnuð rán

Eiður Þór Árnason skrifar
Maðurinn var úrskurðaður í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Maðurinn var úrskurðaður í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. september, að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á síbrotum og tveimur vopnuðum ránum í gær.

Úrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Greint er frá þessu í tilkynningu frá lögreglunni sem hyggst ekki veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo komnu máli.

Fram kom í gær að tveir menn hafi verið handteknir grunaðir um tvö vopnuð rán í Reykjavík og Kópavogi. Óku mennirnir um á vespu og rændu gangandi vegfarendur, að sögn lögreglu. 

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við fréttastofu að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn tengist meðal annars ránunum sem greint var frá í gær. Hinn maðurinn sem hafi sömuleiðis verið handtekinn í gær hafi verið sleppt lausum í morgun.

Ógnað honum með hníf

Kona sem býr í hverfi 108 greindi frá því í Facebook-hópi íbúa hverfisins í gær að hún hafi verið á göngu með eiginmanni sínum við Bústaðarveg þegar þau mættu tveimur mönnum á vespu á ógnarhraða.

„Við rétt náðum að forða okkur og maðurinn minn kallar á þá að hægja á sér. Þá snarstansa þeir, voru tveir ungir menn, og ganga mjög ógnandi að okkur. Annar dregur upp stóran hníf og ógnar manni mínum með hnífinn á lofti og heimtar verðmæti.“

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá aðstoðaryfirlögregluþjóni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×