Innlent

Hleðslu­stöðva­skortur Sauð­krækinga leystur fyrir lands­mót

Bjarki Sigurðsson skrifar
Unglingalandsmót UMFÍ fer fram á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.
Unglingalandsmót UMFÍ fer fram á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Vísir/Egill

Unglingalandsmót UMFÍ fer fram á Sauðárkróki um helgina. Framkvæmdastjóri mótsins gerir ráð fyrir því að fólksfjöldi bæjarins þrefaldist yfir helgina sem reynir á ýmsa innviði, svo sem hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla. 

Þetta verður í 24. skiptið sem mótið fer fram en í fjórða sinn sem það fer fram á Sauðárkróki. Gert er ráð fyrir því að eitt til tvö þúsund krakkar taki þátt og fylgja foreldrar þeirra með enda mikil fjölskylduhátíð.

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri mótsins, segir alla eiga eftir að finna eitthvað sér við hæfi.

„Það ætti engum að leiðast og það eiga allir að finna eitthvað við sitt hæfi og það eiga allir að vera á sínum forsendum,“ segir Ómar. „Við leggjum mikla áherslu á að þetta er fjölskylduhátíð. Íþrótta- og fjölskylduhátíð. Þannig við viljum að þarna sé fjölskyldan saman í góðu umhverfi og íþróttir skipa stóran sess, stærstan sess af dagskránni. En það er mikið, mikið annað en íþróttir. Það eru ekki allir sem eru þar en það eiga allir að finna einhver verkefni við sitt hæfi á mótinu, alveg klárlega.“

Ómar Bragi Stefánsson er framkvæmdastjóri mótsins.

Íbúar á Króknum hafa rætt sín á milli um skort á almennum hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla í bænum en einungis ein slík er til staðar. Ómar segir það vandamál, líkt og öll önnur sem upp koma við skipulagningu, hafa verið leyst.

„En til þess erum við að skipuleggja þetta mót. Við verðum með sjö eða átta stöðvar sem verða settar upp á tjaldsvæðinu. Það eru allir sem eru að leysa svona vandamál og vilja að gestir okkar upplifi það vel að koma hingað. Vissulega höfðum við áhyggjur í upphafi en þá förum við bara í verkið og leysum það,“ segir Ómar.


Tengdar fréttir

Líf og fjör á Ung­linga­land­smótinu um verslunar­manna­helgina

Unglingalandsmót UMFÍ fer fram um verslunarmannahelgina á Sauðárkróki en þetta er 24. unglingalandsmótið sem UMFÍ heldur og það fjórða sem er haldið á Sauðárkróki. Mótið er fyrir alla fjölskylduna og ætlað keppendum á aldrinum 11-18 ára.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×