Fótbolti

Neymar grét í fimm daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar grét eftir tapið í vítakeppni á móti Króötum á HM 2022 og hélt áfram að gráta í fimm daga.
Neymar grét eftir tapið í vítakeppni á móti Króötum á HM 2022 og hélt áfram að gráta í fimm daga. Getty/Matthew Ashton

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar átti mjög erfitt með að sætta sig við það þegar Brasilía datt úr á heimsmeistaramótinu í Katar í desember síðastliðnum.

Neymar talaði um vonbrigðin í nýju viðtali við YouTube manninn Casimiro þar sem Neymar segist hafa grátið í fimm daga eftir tapið á móti Króatíu í átta liða úrslitum HM og íhugaði að leggja landsliðsskóna sína upp á hillu.

Neymar kom Brasilíu yfir í leiknum í framlengingu og hélt hann væri að tryggja brasilíska liðinu sæti í undanúrslitum en Króatar jöfnuðu og tryggðu sér síðan sigurinn í vítakeppni.

Neymar hefur ekki spilað aftur fyrir brasilíska landsliðið frá þessu tapi en leikurinn fór fram 9. desember 2022. Hinn 31 árs gamli framherji meiddist illa á ökkla í leik með Paris Saint Germain og missti af síðustu mánuðum tímabilsins.

„Ég get ekki sagt þér það sem fór í gegnum hausinn á mér. Þetta var sársaukafyllsta tapið á ferlinum, án nokkurs vafa. Ég grét samfellt í fimm daga. Það særði mig mikið að sjá drauminn minn verða að engu,“ sagði Neymar.

„Ég hefði kosið frekar að skora ekki, gera markalaust jafntefli og tapa síðan í vítakeppni frekar en að skora markið, þeir ná að jafna og við töpum í vító,“ sagði Neymar.

„Þetta var versta mómentið á ferlinum. Þetta var eins og vera í jarðarför. Einhver grátandi hægra megin við þig og annar grátandi vinstra megin við þig. Þetta var hryllilegt og ég vil ekki upplifa slíkt aftur,“ sagði Neymar.

Neyma hefur tekið þátt í þremur heimsmeistarakeppnum með Brasilíu, 2014, 2018 og 2022. Á HM 2014 tapaði liðið 7-1 í undanúrslitum á móti Þýskalandi á heimavelli en Neymar missti af þeim leik vegna bakmeiðsla. Brasilíumenn hafa síðan tapað í átta liða úrslitum í síðustu tveimur keppnum.

Neymar hefur því aldrei náð að spila í undanúrslitum eða úrslitaleik á HM hvað þá að ná að verða heimsmeistari. Hann ætlar að reyna einu sinni enn á HM 2026.

„Eftir heimsmeistaramótið 2022 þá vildi ég ekki spila aftur með landsliðinu ef ég segi alveg eins og er. Ég hef nú skipt um skoðun af því að ég er mjög hungraður í þennan titil. Ég vildi ekki ganga aftur í gegnum svona og sjá fjölskyldu mína þjást svona mikið. Nú þurfa þau að þola þetta aftur en nú mun þetta enda vel. Það verður að gera það,“ sagði Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×