Lífið

„Í lífinu er ekkert grand plan“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Það er aldrei of seint að reyna fyrir sér í nýju starfi. Sigurjón Sighvatsson settist í leikstjórnarstólinn í fyrsta skipti á sínum 40 ára kvikmyndaferli í fyrra. Það eru ekki nema tvö ár síðan hann ljóstraði upp um að hann væri myndlistarmaðurinn CozyBoy.
Það er aldrei of seint að reyna fyrir sér í nýju starfi. Sigurjón Sighvatsson settist í leikstjórnarstólinn í fyrsta skipti á sínum 40 ára kvikmyndaferli í fyrra. Það eru ekki nema tvö ár síðan hann ljóstraði upp um að hann væri myndlistarmaðurinn CozyBoy. Vísir/Vilhelm

Sigur­jón Sig­hvats­son er fluttur frá Hollywood og var nýlega verð­launaður fyrir frum­raun sína í leik­stjórn. Hann er samt enn á fullu í kvikmyndaframleiðslu þó hann hafi tyllt sér aðeins í leik­stjóra­stólinn. Í haust kemur hroll­vekja eftir Yrsu í bíó og fleiri myndir eru handan við hornið.

Heimildamyndin Exxtinction Emergency er fyrsta myndin sem Sigurjón skrifar og leikstýrir á sínum 40 ára kvikmyndaferli. Hún var verðlaunuð á Montreal Independent Film Festival á dögunum og er á leið á fleiri hátíðir. 

Þar að auki er Sigurjón, sem hefur yfirgefið Hollywood fyrir Ísland og Portúgal, með fleiri járn í eldinum.

Hann er með réttinn að grínmyndinni Perfetti sconosciuti á öllum Norðurlöndunum, Villibráð kom út fyrr á árinu og hin danska Hygge kemur út í haust. Þá er von á íslenskri hrollvekju, heimildamynd um rafmyntaræningja og ýmsu öðru á næstunni.

Engin nýgræðingur í heimildamyndagerð

Hvað kemur til að þú ert farinn að leikstýra?

„Það er nú þannig að í lífinu er ekkert grand plan,“ segir Sigurjón sem bætir við að hann hafi oft komið að gerð heimildamynda áður.

„Ég framleiddi Madonnu-heimildamyndina Truth or Dare sem var ein aðsóknarmesta heimildarmynd í Bandaríkjunum þangað til Fahrenheit 9/11 kom út. Svo gerði ég Gargandi snilld um íslensku tónlistarsenuna sem gekk mjög vel.“

„Þannig ég hef auðvitað komið að heimildamyndaframleiðslu,“ segir Sigurjón. 

Við upptalningu Sigurjóns má bæta við Zidane: A 21st Century Portrait sem fylgdi eftir hverri hreyfingu fótboltakappans í einum af síðustu keppnisleikjum hans.

Enginn annar hafði áhuga á hugmyndinni

„Ég fór fyrst að heyra um þetta fyrirbæri Extinction Rebellion sex til átta mánuðum eftir að það byrjaði, í byrjun árs 2019. Ég hafði áhuga á þessu og áhuga á því að gera heimildarmynd um þetta,“ segir Sigurjón um aðdragandann.

Umhverfisverndarhreyfingin Extinction Rebellion varð til í Bretlandi árið 2018 og lagði áherslu á friðsæl mótmæli.

„Það hafði enginn í Ameríku heyrt um þetta og það hafði enginn áhuga á þessu. Þannig ég hugsaði með mér Ég geri þetta bara sjálfur,“ segir hann

Sigurjón hafði því samband við klipparann Scott Hardie og þeir hófust handa í september 2019. „Svo kom Covid sem gerði þetta allt erfiðara,“ segir Sigurjón og segir þá hafa íhugað að hætta við myndina enda aðstæður afar erfiðar.

„Þetta er örugglega fyrsta myndin sem er framleidd með engu kolefnisfótspori. Það var ekki flogin ein flugferð til að taka þetta,“ segir Sigurjón sem dregur þó strax úr fullyrðingunni. 

Sigurjón Sighvatsson er með nóg af járnum í eldinum, bæði framleiðslu og leikstjórn.

„Við tókum sumt sjálfir í Kaliforníu, svo unnum við með fólki úr borgunum sem sendu okkur efni og svo tókum við öll viðtölin á Zoom. Nema þau sem eru í mynd. Þá fórum við og hittum fólkið, að vísu í bíl svo það er smá kolefnisfótspor,“ segir hann.

Heimilda­myndin skoðar hreyfinguna í tengslum við upp­haf um­hverfis­verndar­hreyfinga í heiminum og hvernig hún hefur breiðst út um allan heim. Hlutur listar í mót­mælunum heillaði Sigur­jón sér­stak­lega við hreyfinguna og stefnir hann á frekari smá­heimilda­myndir um list­hópa hreyfingarinnar.

Næ þetta fólk í gegn og ná þau að afkasta einhverju?

„Ég held að Greta Thunberg á eigin spýtur og Extinction Rebellion sé grunnurinn sem allir þeir sem eru að mótmæla loftslagsmálum byggja á,“ segir Sigurjón. 

Aktívismi sem þessi sé erfiður og sjaldan fyrir hinn almenna borgara. En ef horft er til friðsamra mótmæla í sögulegi samhengi sé ljóst að þau geta áorkað miklu.

„Eins og segir í myndinni þarf sérstakt fólk til að standa í þessu, það eru annað hvort dýrlingar eða geðsjúklingar sem fara út á göturnar og mótmæla. Hinn almenni borgari er að sækja börnin, elda matinn og passa launaseðilinn,“ segir Sigurjón.

Sigurjón Sighvatsson var með ljósmyndasýningu á Hafnartorgi í fyrra.Vísir/Vilhelm

Hreyfingin er komin til um 150 landa og segir Sigurjón hana hafa breyst mikið. Hlutur karla hafi minnkað frá því sem var í upphafi og hún hafi sömuleiðis aðeins brennt sig á fullhörðum aðgerðum.

„Ég held að Extinction Rebellion sé, með því að nóta tól eins og tónlist og dans, að afvopna lögreglu af því hvað eiga þau að gera við tónlistarfólk og dansara. Það er annað en þeir sem eru bara að berja í bumbur þó búsáhaldarbyltingin hafi virkað.“

„Þau gengu síðan of langt þegar þau stoppuðu lestirnar og þá komu sprungur í samstarfið. Um leið small hreyfingin saman og fór að milda mótmælaaðgerðirnar til að óbreyttir borgarar yrðu ekki fyrir barðinu á þessu,“ segir Sigurjón.

Dauf viðbrögð á Fróni

Þó myndin hafi komið út í október í fyrra var hún nýlega valin „Best Environmental Feature“ í Montreal og er á leiðinni á fleiri hátíðir. Viðbrögðin við myndinni á Íslandi voru þó aðeins daufari en Sigurjón átti von á.

„Enginn er spámaður í sínu heimalandi og það voru ekkert æðisleg viðbrögð við myndinni hér en þau voru fín, allt í lagi. En það var líka kominn svolítil þreyta í fólk gagnvart þessu öllu af því það var Covid,“ segir Sigurjón.

„Við sendum þetta á festivöl og svo fer heimurinn af stað aftur og raunveruleikinn lætur á sér kræla, bæði í fyrra og núna. Það má því segja að tímasetningin gæti ekki verið betri,“ segir hann.

„Eins og einhver sagði við mig, Nú er náttúran komin í sína eigin uppreisn.

„Við erum búin að vera í Malibu og fleiri smærri festivölum í Bandaríkjunum. Svo erum við að fara í aðalkeppnina í Madríd og svo verðum við líka á Mpumalanga-hátíðinni í Suður-Afríku,“ segir Sigurjón.  

„Það sem er auðvitað athyglisvert við þessar hátíðir að þetta er í heitustu borgum heims.“

Sjá einnig: Júlí gæti orðið heitasti mánuðurinn í 120 þúsund ár

Hryllingur frá Yrsu, rafmyntaræningjar og nýrómantísk skáld

Nú þegar Sigurjón er kominn á leikstjórnarbragðið fær hann ekki nóg og ætlar að gera mini-heimildamyndir um listhópa XR. Þar að auki er ýmislegt annað í bígerð, sumu má segja frá, öðru ekki.

En ertu alveg hættur í framleiðslu leikinna mynda?

„Ég er yfirframleiðandi á Villibráð og við erum búin að gera útgáfu af henni í Danmörku sem Dagur Kári leikstýrir og heitir Hygge. Hún kemur út í haust,“ segir Sigurjón.

Jóhannes Haukur Jóhannesson fer með eitt af aðalhlutverkunum í Kulda.Skjáskot

„Svo er ég að framleiða mynd eftir næstu bók Yrsu á eftir Ég man þig sem heitir Kuldi og Erlingur Óttar Thoroddsen leikstýrir. Hún kemur út 1. september,“ segir Sigurjón en Jóhannes Haukur er þar aftur í aðalhlutverki.

„Ég er að samleikstýra tveimur öðrum heimildarmyndum.“ 

„Önnur er óbeint framhald af Gargandi snilld sem ég gerði með Ara Alexander 2005. Við erum núna að gera mynd sem við leikstýrum saman um íslensku nýklassísku skáldin og heitir Ó guð þetta er kraftaverk.“

„Svo er ég að gera mynd með Gauki Úlfarssyni um rafmyntaræningjana, strákana sem stálu rafmyntatölvunum. Hún verður vonandi tilbúin fyrir árslok.“

Sjá einnig: Sindri Þór segist hræddur: „Ég segi ekki nei við hann“

„Þetta eru báðar myndir sem eru með töluvert einkafjármagn erlendis frá sem er ekkert mjög algengt fyrir íslenskar myndir,“ segir hann.

Þá segist Sigurjón vera yfirframleiðandi á sjónvarpsseríunni Dog Pack, óbeinu framhaldi af seríunni Sul sem er sýnd á Rúv þessa dagana.

„Auðvitað er ég áfram í framleiðslu og er með nokkur verkefni sem eru á prjónunum en þetta eru þau sem eru aktúel,“ segir hann.

Gaukur Úlfarsson leikstýrði myndunum Gnarr og Þorsta. Vísir/Vilhelm

Farinn frá borg englanna 

Sigurjón er fluttur frá Los Angeles þar sem hann bjó og starfaði lengi. Hann segir að það sé kannski fyrir bestu enda sé ástandið í Bandaríkjunum hektískt.

Þú ert fluttur alfarið til landsins er það ekki?

„Ég er allavega fluttur frá Bandaríkjunum en ég ætla ekki bara að vera hér,“ segir Sigurjón sem dvelur þessa dagana í Portúgal með fjölskyldu sinni.

„Það eru líka bara svo mikil vandamál í Bandaríkjunum eins og þessi allsherjar verkföll í Hollywood sýna fram á. Kannski var ég bara heppinn að lenda hérna í Covid en um leið þarftu að vera byrjaður að þróa verkefnin,“ segir Sigurjón.

Sigurjón segir verkföll leikara og handritshöfunda í Hollywood tímabær.Vísir/Vilhelm

Hvernig blasa þessi verkföll í Hollywood þá við þér?

„Það er nú dálítið skrítið að hafa búið svona lengi í Hollywood af því ég hef aldrei beint verið aðdáandi Hollywood-kvikmyndagerðar, ekki síst hvernig myndirnar hafa verið gerðar dýrar og hvað í rauninni þeir sem vinna að þeim hafa fengið lítið í sinn hlut,“ segir Sigurjón.

„Ég hef alltaf verið sjálfstæður framleiðandi svo ég hef ekki gert mikið af stúdíómyndum, eina á fimm til sex ára fresti. Það eru kostir og gallar við að vinna með stúdíóunum.“

„Það má segja að streymisveiturnar séu litla þúfan sem velti þessu þunga hlassi sem er búið að vera á Hollywood í áratugi sem er, að það eru bara örfáir sem hafa notið verulega góðs af þessu. Þannig ég held að þessi verkföll verði langvinn og erfið,“ segir hann.

„Streymisveitur eru komnar til að vera en streymisveitumódelið er ekki að virka. Kerfið eins og það er í dag er ekki sjálfbært. En það er jafnmikil della að segja að það muni allir hætta að fara í bíó.“

„En ég held að bransinn í heild, eftir þessi verkföll, muni aðlaga sig. Það verður algjör endurstilling. En það að segja sögur á myndrænu máli, það er ekkert búið að vera. Þvert á móti, þó það sé kannski erfiðara að fá fólk í bíó,“ segir Sigurjón.

„Það er nú fræg setning sem Samuel Goldwyn sem stofnaði MGM sagði 1946: Það er ekkert að kvikmyndabransanum sem góð kvikmynd læknar ekki.“

„Er það ekki bara það sem er að ske með Oppenheimer og Barbie og þess vegna Mission Impossible?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×