Húsbíll og jepplingur sem komu úr gagnstæðum áttum rákust saman á Snæfellsvegi norðan við Hítará í hádeginu í gær. Sjö farþegar voru í bílunum og var farþegi úr öðrum þeirra úrskurðaður látinn á vettvangi. Þrír voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar og þrír með sjúkrabíl.
„Það var enginn af hinum hættulega slasaður eftir því sem ég best veit. Einhverjir fóru heim að skoðun lokinni,“ segir Jón Ólason, yfirlögregluþjónn á Vesturlandi, í samtali við fréttastofu.
Jón segir að rannsókn málsins sé í vinnslu og að ekki mikið hafi bæst við hana síðan í gær. Þá hafi ekki verið hægt að taka skýrslu af neinum í gær.