Innlent

Tvö tonn af vatni í senn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið nýttar til að slökkva gróðurelda.
Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið nýttar til að slökkva gróðurelda. Vísir/Vilhelm

Slökkvistarf Landhelgisgæslunnar við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga hefur gengið vel að sögn stýrimanns. Notast er við skjólur sem rúma um tvö tonn af vatni. 

Gæslan sinnir slökksvistarfinu í samstarfi við slökkviliðið í Grindavík. Nokkuð hefur borið á gróðureldum við gosstöðvarnar, en gæslan hefur einblínt á svæðið norðan við gosstöðvarnar á meðan slökkviliðið hefur unnið að því að slökkva elda nálægt gönguleiðum að eldgosinu í Litla-Hrút.

Stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni segir að reynt sé að sinna slökkvistarfinu eins mikið og hægt er, að ósk Almannavarna.

„Við erum með svokallaða skjólu undir þyrlunum, sem við fyllum af vatni eða sjó eftir aðstæðum og sleppum því yfir elda til að slökkva þá,“ segir Gunnar Örn Arnarson stýrimaður.

Í gær hafi verið farnar margar ferðir yfir svæðið á þyrlunni TF-EIR, og því mikið vatn sem hellt var á eldana.

„Þeir taka sirka tvö tonn af vatni eða sjó í skjóluna, sem þeir þá fara með í hverri ferð. Þetta voru 14 ferðir sem þeir fóru í gær.“

Ekki hafi þurft að sækja slasaða ferðamenn á gosstöðvarnar með þyrlu frá því gosið hófst. Hins vegar hafi vísindamenn fengið að fljúga með þyrlum Gæslunnar.

„Svo lentum við nú í því í fyrradag, þegar við vorum með slökkviskjóluna að þurfa að hætta því og fara í verkefni austur í Þjórsárdal. Þannig að við erum til taks,“ segir Gunnar Örn.

Í tilkynningu frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands kemur fram að samkvæmt hraunflæðimælingum frá upphafi goss og þar til í gær sé meðalhraunflæði gossins um 13 rúmmetrar á sekúndu, sem er svipað og mest var í eldgosinu í Meradölum fyrir tveimur árum síðan. Heildarrúmmál hraunsins sé nú 3,4 milljón rúmmetrar og flatarmálið um 0.4 ferkílómetrar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×