Á vef Fiskistofu segir að skip með strandveiðileyfi megi einungis halda til veiða á morgun, hafi þau verið með veiðileyfi áður en þau fengu strandveiðileyfið.
Sjómenn og Landssamband smábátaeigenda höfðu kallað eftir því að Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, endurskoðaði þá ákvörðun sína að auka ekki veiðiheimildir til strandveiða en þetta er nú orðin stysta vertíðin í sögu strandveiðanna.
Landssambandið vísaði meðal annars í áskorun til ráðherra til þess að strandveiðar brúi það tímabil sem þegar stóru fyrirtækin loki vegna sumarleyfa fram að næsta fiskveiðiári. Strandveiðar séu mikilvægar sjómönnum, fiskkaupendum og vinnsluaðilum.
Sjá einnig: Patreksfjörður í efsta sæti strandveiðanna
Strandveiðunum hefur iðulega lokið í ágúst en í ár var strandveiðikvótinn alls 8.527 tonn. Óánægjan er sérstaklega mikil meðal smábátaeigenda á norðan- og austanverðu landinu, en þar er aðalveiðitímabilið síðari hluta sumars, í júlí og ágúst.