Innlent

Jarðskjálfti og rauður blettur en ekkert eldgos hafið

Máni Snær Þorláksson skrifar
Frá Meradölum. Ekki er byrjað að gjósa enn sem komið er.
Frá Meradölum. Ekki er byrjað að gjósa enn sem komið er. Vísir/Vilhelm

Nokkuð snarpur jarðskjálfti átti sér stað á tólfta tímanum í kvöld. Þá hafa borist ábendingar um að eldgos gæti verið hafið miðað við reyk og annað sem sjá má á vefmyndavélum. Svo er hins vegar ekki.

Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að fyrstu mælingar geri ráð fyrir að skjálftinn hafi verið 3,3 að stærð. 

Fréttastofa hefur fengið ábendingar í kvöld um að gos gæti mögulega verið hafið. Hefur þá verið miðast við það sem sjá má á vefmyndavélum fjölmiðla. Til að mynda mátti sjá rauðan blett á vefmyndavél mbl.is. Böðvar segir að ekkert eldgos sé þó á bakvið þann blett. Líklega er sólinni frekar um að kenna þar.

Hér fyrir miðju má sjá lítinn rauðan blett. Þessi rauði blettur er þó ekki eldgos.mbl.is

Þá mátti á sjöunda tímanum í kvöld sjá það sem virtist vera reykur að koma upp úr Litla-Keili. Það reyndist þó ekki vera raunin.

„Það er eitthvað dót á linsunni sem gerir að það líti út fyrir að vera reykur. Eins og einhver fluga sé búin að klessa á hana, einhver fita eða eitthvað á henni,“ sagði Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um „reykinn“ fyrr í kvöld.

Svo virtist vera sem það væri byrjað að rjúka úr Litla-Keili en svo var ekki.RÚV

Skömmu síðar færðist vefmyndavélin og fékkst það þá algjörlega staðfest að um kámu á linsunni var að ræða. Þegar rætt var við Bjarka fyrr í kvöld hafði skjálftavirknin verið byrjuð að aukast aftur. Skjálftarnir náðu þá upp að þremur en flestir voru minni.

Hægt er að fylgjast með skjálftasvæðinu í beinni útsendingu á Vísi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×