Innlent

Göngu­gatan þurfi ekki alltaf að vera göngu­gata

Bjarki Sigurðsson skrifar
Halla Björk Reynisdóttir er forseti bæjarstjórnar á Akureyri.
Halla Björk Reynisdóttir er forseti bæjarstjórnar á Akureyri. Vísir/Arnar

Lokunartími göngugötunnar á Akureyri hefur aukist síðustu ár. Forseti bæjarstjórnar segir það ekki nauðsynlegt að loka fyrir umferð allan ársins hring enda séu gangandi vegfarendur í fullum rétti allan ársins hring.

Í byrjun sumars var greint frá því að ákveðið hafi verið að loka fyrir umferð um göngugötuna næsta sumar. Túlkuðu einhverjir málin þannig að göngugatan væri þá venjulega ekki göngugata á sumrin.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, bendir þó á að þarna sé um misskilning að ræða, einungis sé verið að bæta við þá lokun sem hefur verið í gangi síðustu sumur.

„Við höfum síðustu ár verið jafnt og þétt að auka við lokunartímann. Svo kom til umræðu að loka henni alveg í þrjá mánuði. Við vildum taka tillit til rekstraraðila í götunni og þeir óskuðu eftir lengri aðlögunartíma. Þannig við samþykktum að þessari götu, sem heiti göngugatan í daglegu tali fólks, yrði lokað alfarið júní, júlí og ágúst á næsta ári. Á þessu ári eru þetta tímabundnar lokanir eins og hefur verið síðustu ár,“ segir Halla.

Göngugatan á Akureyri er ekki göngugata allan ársins hring.Vísir/Arnar

Hún segir götuna alla jafna iða af lífi á sumrin þegar veðrið er hliðhollt bæjarbúum. Þá eru farþegar skemmtiferðaskipanna einnig tíðir gestir. Hún bendir á að þrátt fyrir að göngugatan sé ekki alltaf göngugata séu gangandi vegfarendur í forgangi allan ársins hring.

„Við búum ekki alltaf við 20 stiga hita og sól þannig við höfum sagt að það sé nóg að vera þessa þrjá sumarmánuði. Hún er auðvitað vistgata allan ársins hring. Þar sem gangandi vegfarendur og hjólandi hafa forgang. Það má segja göngugata, ekki göngugata, við höfum alltaf réttinn, það er gangandi vegfarendur,“ segir Halla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×