Erlent

Saka hver annan um að ætla sér að ráðast á kjarn­orku­verið

Kjartan Kjartansson skrifar
Zaporizhzhia-kjarnorkuverið er það stærsta í Evrópu. Það er á valdi Rússa.
Zaporizhzhia-kjarnorkuverið er það stærsta í Evrópu. Það er á valdi Rússa. AP/Libkos

Úkraínumenn og Rússar saka hver annan um að ætla sér að ráðast á Zaporizhzhia-kjarnorkuverið í suðaustanverðri Úkraínu. Hvorugir þeirra hafa þó lagt fram sannanir fyrir fullyrðingum sínum.

Zaporizhzhia er stærsta kjarnorkuver Evrópu. Það hefur verið á valdi Rússa frá því tiltölulega snemma í innrás þeirra í Úkraínu í fyrra. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur ítrekað lýst yfir áhyggju af verinu og hættunni á meiriháttar kjarnorkuslysi þar. Úkraínsk stjórnvöld hafa varað við því að Rússar ætluðu sér að vinna skemmdarverk á verinu til þess að hefta framgang gagnsóknar þeirra undanfarnar vikur. 

Orðrómi um að Úkraínumenn ætluðu sér að ráðast á kjarnorkuverið var dreift á rússneskum samskiptamiðlum í gær. Dmitríj Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, hélt því fram að úkraínski herinn ætlaði sér að vinna skemmdarverk á verinu sem hefðu hörmulegar afleiðingar.

Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, fullyrti í gærkvöldi að Úkraínumenn hefðu njósnir af því að rússneskir hermenn hefðu komið fyrir torkennilegum hlutum á þaki kjarnorkuversins, mögulega sprengjum. Ætlun Rússa væri að sviðsetja árás og kenna Úkraínumönnum um hana.

„Sprenging myndi ekki skemma ofnana en gæti skapað þá mynd að Úraínumenn hefðu skotið sprengikúlum á þá,“ sagði Selenskíj.

Aldrei skyldi ráðast á kjarnorkuver

Slökkt er á sex kjarnaofnum Zaporizhzhia-versins en það þarf engu að síður á rafmagni að halda til þess að halda kælikerfum sem tryggja öryggi þess gangandi.

Kjarnorkuverið er talið mun öruggara en Tsjernobyl-kjarnorkuverið þar sem versta kjarnorkuslys sögunnar átti sér stað árið 1986. Ólíklegt sé að geislavirkt efni bærist víða þrátt fyrir að ráðist væri á það, að sögn AP-fréttastofunnar.

Rafael Mariano Grossi, forstjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, segist vita af ásökunum stríðandi fylkinganna. Ítrekaði hann að ekki ætti að ráðast á kjarnorkuver undir nokkrum kringumstæðum.

Viðvaranir Úkraínumanna nú þykja minna nokkuð á varnaðarorð þeirra um að Rússar kynnu að sprengja upp stíflu til þess að stöðva gagnsókn þeirra. Tugir þúsunda manna þurftu svo að flýja heimili sín þegar Rússar skemmdu Kakhovka-stífluna í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×