Innlent

For­menn stjórnar­flokkanna í Pall­borðinu í fyrra­málið

Heimir Már Pétursson skrifar
Formenn stjórnarflokkanna mæta í biena útsendingu í Pallborðinu á Vísi og Stöð 2/Vísi kl 08:30.
Formenn stjórnarflokkanna mæta í biena útsendingu í Pallborðinu á Vísi og Stöð 2/Vísi kl 08:30. Grafik/Sara

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra ræða ýmis ágreinings- og átakamál á boðri ríkisstjórnarinnar í Pallborðinu hjá Heimi Már Péturssyni fréttamanni á Vísi og Stöð 2/Vísi í fyrramálið klukkan hálf níu.

Skýrsla fjármálaeftirlitsins um sátt þess við Íslandsbanka um sölu á 22,5 prósenta hlut í bankanum er nýjasta stóra málið þar sem alger áfellisdómur er felldur um söluferlið á bankanum. Að auki er mikill ágreiningur innan stjórnarinnar um tímabundið hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra frá því í síðustu viku.

Útlendingamálin hafa reynst ríkisstjórninni erfið þótt Jón Gunnarsson fyrrverandi dómsmálaráðherra hafi loks náð frumvarpi um það mál í gegnum þingið í fimmtu tilraun ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hann komst hins vegar ekki áfram með frumvarp um auknar rannsóknarheimildir lögreglunnar vegna fyrirvara Vinstri grænna og frumvörp hans um sameiningu héraðsdómstóla annars vegar og sýslumannsembætta hins vegar komust heldur hvergi.

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að grípa þurfi til frekari aðgerða til að koma í veg fyrir að hátt í tvö þúsund manns bíði eftir að fá niðurstöðu varðandi umsókn sína um hæli á Íslandi. Kostnaðurinn við þann hóp einan væri kominn í um tíu milljarða á ári.

Þá hefur ný virkjun ekki verið byggð árum saman. Loksins þegar horfur voru á að Hvammsvirkjun væri komin á beinu brautina felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virkjanaleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun óvænt úr gildi í þarsíðustu viku.

Pallborðið verður í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2/Vísi kl. 8:30 á þriðjudagsmorgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×