Innlent

Katrín Jakobs­dóttir stundi ó­merki­lega pólitík

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Jóhann Páll Jóhannsson hefur gagnrýnt Katrínu Jakobsdóttur harðlega fyrir linkind í garð Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra.
Jóhann Páll Jóhannsson hefur gagnrýnt Katrínu Jakobsdóttur harðlega fyrir linkind í garð Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Jóhann Páll Jóhannsson segir það ómerkilega pólitík hjá forsætisráðherra að segja að allir sem komu að söluferlinu á Íslandsbanka þurfi að standa skil á gjörðum sínum nema fjármálaráðherra. Trúi hún því að undirbúningur sölunnar standist skoðun ætti hún að falla frá andstöðu sinni við skipun rannsóknarnefndar.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifaði færslu á Facebook í dag þar sem hann gagnrýndi Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands harðlega.

Hann segir þar að það sem hafi verið kallað „farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar“ þar sem „engin lög hefðu verið brotin“ hafi endað með hæstu sekt Íslandssögunnar. Þá hafi Katrín Jakobsdóttir sagt undirbúning sölunnar og þátt ráðherra „tipp topp“ en aðeins framkvæmdin hafi verið í ólagi.

„Nú vill hún að eiginlega allir sem komu að ferlinu „standi skil á sínum gjörðum fyrir almenningi“… nema auðvitað ráðherrann sem ber lagalega og pólitíska ábyrgð á sölunni, átti að marka henni skynsamlegan ramma, hafa eftirlit með ferlinu og gæta þess að lögum væri fylgt,“ segir í færslunni.

„Þetta er ómerkileg pólitík sem ég held að fólkið í landinu sjái í gegnum,“ segir hann.

Loks segir hann að ef Katrín Jakobsdóttir trúi því raunverulega að vinnubrögð fjármálaráðherra og undirbúningur sölunnar standist skoðun ættu hún og hennar þingflokkur „að falla frá andstöðu sinni við að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd Alþingis til að fara yfir alla þætti málsins.“

Hann segir slíka rannsókn lykilinn að því að „hefja málið upp úr skotgröfum, endurheimta traust og draga lærdóm af Íslandsbankamálinu.“


Tengdar fréttir

Banka­sýsla ríkisins lýsir yfir miklum von­brigðum

Í fréttatilkynningu segir að Bankasýsla ríkisins lýsi yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögð Íslandsbanka við útboð á 22,5 prósent eignarhlut ríkisins í bankanum, í ljósi þess sem fram kemur í nýgerðri sátt bankans við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands. Boðað verður til hluthafafundar vegna málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×