Innlent

Sam­­skipti starfs­mannanna gefi kol­ranga mynd af starfi borgarinnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, vísar því á bug að lýðræðisvettvangar borgarinnar séu upp á punt. 
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, vísar því á bug að lýðræðisvettvangar borgarinnar séu upp á punt.  Vísir/Ragnar

Odd­viti Pírata í borgar­stjórn segir af og frá að lýð­ræðis-og sam­ráðs­vett­vangar Reykja­víkur séu upp á punt, líkt og að­stoðar­maður ráð­herra hefur spurt sig að opin­ber­lega í kjöl­far frétta­flutnings af um­deildum sam­skiptum starfs­manna borgarinnar á fundi með í­búum. Sam­skiptin verða til um­fjöllunar í borgar­ráði í dag en Dóra segir þau gefa kol­ranga mynd af starfi borgarinnar.

„Ég fór fyrir gerð lýð­ræðis­stefnu borgarinnar enda sam­ráð og lýð­ræði okkur Pírötum hjartans mál. Það er af og frá að lýð­ræðis­vett­vangar borgarinnar séu upp á punt,“ segir Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, odd­viti Pírata, í sam­tali við Vísi.

Frétta­stofa bar skrif Steinars Inga Kol­beins, að­stoðar­mann Guð­laugs Þórs Þórðar­sonar um­hverfis­ráð­herra, í að­sendri grein á Vísi undir Dóru. Þar gerir hann um­deild sam­skipti starfs­manna Reykja­víkur­borgar á Face­book Mess­en­ger á meðan fundi stóð með í­búa­ráði Laugar­dals, að um­fjöllunar­efni. Á fundinum hrósuðu verk­efna­stjórar borgarinnar happi yfir því að hafa komið sér undan spurningum um dag­vistunar­vanda á leik­skólum.

Anna Kristins­dóttir, mann­réttinda­stjóri Reykja­víkur­borgar, segir í skrif­legu svari til Vísis að mál starfs­mannanna og sam­skipti þeirra verði tekin fyrir á fundi borgar­ráðs í dag. Steinar Ingi veltir því upp hvort að sam­skiptin væru til vitnis um það að lýð­ræðis­vett­vangar á vegum Reykja­víkur­borgar væru ein­fald­lega upp á punt.

„Ég treysti því að þetta mál verði tekið fyrir í borgar­stjórn og kannað verði hvort kerfið hand­stýri í raun sam­ráðinu og íbúa”lýð­ræðinu” með jafn hörðum höndum og raunin var á þessum fundi,“ skrifar Steinar Ingi meðal annars og segir hann að út­vars­greið­endur í borginni hljóti að velta fyrir sér hvort fjár­munum sé vel varið í alla þessa sam­ráðs­vett­vanga, í­búa­ráð og nefndir.

Svarið sé að veita meiri upplýsingar

Dóra Björt segir leitt þegar upp komi mál sem gefi að hennar sögn kol­ranga mynd af því metnaðar­fulla starfi sem unnið sé þegar kemur að lýð­ræði og sam­tali við íbúa borgarinnar.

„Þá held ég að svarið sé að veita meiri upp­lýsingar til að gefa raun­sanna mynd af stöðunni. Í­búar hafa heil­mikil á­hrif í gegnum lýð­ræðis­verk­efni borgarinnar, og bara meiri og meiri með ári hverju.“

Hún segir borgar­stjórnar­meiri­hlutann alltaf leita leiða til þess að auka að­komu íbúa að á­kvörðunum og segir hún að styrking í­búa­ráða hafi svo sannar­lega skilað sér í bættri þjónustu við íbúa.

„Það eru fjöl­mörg dæmi um um­fangs­miklar breytingar og hug­myndir sem í­búar hafa komið til leiða í gegnum lýð­ræðis­vett­vanga borgarinnar eins og í­búa­ráðin, Hverfið mitt og sam­ráðs­nefndirnar. Við erum að tala um stórar og miklar skipu­lags­á­kvarðanir sem hefur í­trekað verið farið í, hætt við eða breytt fyrir til­stuðlan þessara vett­vanga og sam­tals við íbúa.“

Hún bætir því við að í­búa­ráðin hafi auk þess mikla að­komu að við­halds-, fjár­festinga- og um­ferðar­öryggis­á­ætlun borgarinnar. Hverfið mitt hafi eitt og sér komið til fram­kvæmda um 900 nýjum verk­efnum fyrir fleiri milljarða.

„Sem eru frá A til Ö hugar­fóstur íbúa. Hverfið mitt ber sannar­lega með sér mörg skemmti­leg og krútt­leg verk­efni sem eru til þess fallin að bæta lífs­gæði íbúa en aðrir vett­vangar eins og í­búa­ráðin, á­bendinga­gáttin og sam­ráðs­nefndirnar taka fyrir alla starf­semi borgarinnar og hafa heil­mikil á­hrif á starf­semina.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×