Innlent

Þing­manni Sjálf­stæðis­flokks brugðið við á­kvörðun Svan­dísar

Heimir Már Pétursson skrifar
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að sér sé brugðið vegna ákvörðunar ráðherra.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að sér sé brugðið vegna ákvörðunar ráðherra. Vísir/Vilhelm

Vil­hjálmur Árna­son þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins og for­maður um­hverfis- og sam­göngu­nefndar Al­þingis segir það fara eftir því hvernig mat­væla­ráð­herra vinni úr málinu, hvort tíma­bundið bann hennar á hval­veiðum hafi á­hrif á stjórnar­sam­starfið.

Svan­dís Svavars­dóttir mat­væla­ráð­herra á­kvað í morgun að banna veiðar á lang­reyð tíma­bundið til 31. ágúst á grund­velli eftir­lits­skýrslu Mat­væla­stofnunar og á­liti fagráðs. Veiðar á vegum Hvals hf. áttu að hefjast á morgun og allt klárt vegna þeirra.

„Manni er smá brugðið við þetta. Sér­stak­lega hvað á­kvörðunin er tekin fljótt án þess að eiga eitt­hvað sam­ráð eða leyfa fag­aðilum að veita ein­hvers konar and­mæli svör við þessari skýrslu fagráðsins,“ segir Vil­hjálmur.

Þetta væri mjög stórt inn­grip þar sem yfir hundrað manns hefðu verið að gera sig klára og búnir að gera ráð­stafanir fyrir sumarið til að starfa í þessari at­vinnu­grein. Á­stæða væri til að efast um að ráð­herra hefði laga­stoð til að taka þessa á­kvörðun.

„Miðað við hvað þetta er stór á­kvörðun á skömmum tíma þá óttast maður að svo sé ekki. Ég held að það sé mjög erfitt að taka svona stóra á­kvörðun á svona skömmum tíma,” segir Vil­hjálmur er í vinnu­ferð á Spáni.

Margir þing­menn Sjálf­stæðis­flokksins hafa lýst mikilli ó­á­nægju með þessa á­kvörðun ráð­herrans í sam­tali við frétta­stofu. Það er því spurning hvort þetta hafi á­hrif á stjórnar­sam­starfið.

„Það hlýtur að fara svo­lítið eftir því hvernig verður unnið úr þessu máli. Ég sé að ráð­herrann er að opna á það að hún sé að hefja sam­tal við fag­aðila núna og fara betur yfir laga­lega stöðu á þessari á­kvörðun. Við skulum sjá hvort það gerist ekki bara hratt og vel og hvað kemur út úr því,” segir Vil­hjálmur.

Hann geri sér vonir um að hægt verði að hefja veiðarnar áður en tíma­bundið bann ráð­herrans renni úr gildi.

„Ég geri mér vonir um að það sé hægt að leysa úr málunum fyrr. Mun fyrr. Það er nauð­syn­legt,” segir Vil­hjálmur Árna­son.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×