Innlent

„Maður talar ekki svona við tólf ára barn“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Að sögn Péturs var dóttir hans og frænka hennar miður sín eftir samskiptin í kvennaklefa Grafarvogslaugar.
Að sögn Péturs var dóttir hans og frænka hennar miður sín eftir samskiptin í kvennaklefa Grafarvogslaugar. Reykjavík

Tólf ára stelpa varð fyrir að­kasti á­samt frænku sinni af hálfu sund­laugar­gests í Grafar­vogs­laug í gær vegna upp­runa þeirra. Faðir stelpunnar kveðst gáttaður á því að ein­hver leyfi sér að tala á slíkan hátt við barn.

„Þær voru miður sín í lauginni eftir þessi sam­skipti,“ segir Pétur Ás­geirs­son, faðir stelpunnar í sam­tali við Vísi. Hann birti í gær færslu á í­búa­hópi á Face­book þar sem hann lýsir því að dóttir sín Heiða Péturs­dóttir hafi orðið fyrir ras­isma af hálfu sjö­tugrar konu í kvenna­klefanum í lauginni.

„Mamma hennar er frá Gvate­mala, þar sem ég bjó í tíu ár og börnin mín fæddust. Við erum búin að búa hér síðan árið 2017 og dóttir mín farið í gegnum grunn­skóla hér og svo fram­vegis. Hún fór í sund í gær á­samt frænku sinni sem er hér í heim­sókn frá Gvate­mala.“

Sagði það þeim að kenna að Ís­land væri orðið skítugt

Pétur segist hafa undir­búið þær vel undir sund­laugar­ferðina, enda öðru­vísi að fara í sund á Ís­landi en annars staðar. „Önnur þeirra var sér­stak­lega stressuð, enda að gera þetta í fyrsta skiptið,“ segir Pétur.

Hann segir þær hafa byrjað á að klæða sig í sund­bol og farið þannig í sturtuna. Þar hafi þær ætlað að klæða sig úr til þess að baða sig fyrir laugina.

„Þá kemur sem sagt ein­hver kona og bendir þeim á á leiðin­legan hátt að þær þurfi að fara í sturtu áður en þær fara út í. Sem er svo sem allt í lagi í sjálfu sér, eins og ég út­skýrði fyrir þeim, að það er eðli­legasti hlutur í heimi að benda fólki á sun­d­reglur hér á Ís­landi, sér­stak­lega fyrir fólk er­lendis frá sem kannski áttar sig ekki á þessu.“

Konan hafi hins vegar fært sig upp á skaftið og ekki látið frænkurnar í friði. „Svo kemur hún með svona at­huga­semd um að það sé þeim að kenna hvað Ís­land sé orðið skítugt og allt sé orðið ó­geðs­legt og segir þeim að þær ættu bara að drullast til baka heim til sín. Dóttir mín fór að há­gráta og bað hana af­sökunar og sagði að þær myndu baða sig.“

Ekki boð­leg fram­koma

Pétur segist hafa sótt frænkurnar að sundi loknu og þær sagt honum hvað hafi komið upp á í kvenna­klefanum. Hann hafi sam­stundis farið í laugina og gert til­raun til að hafa uppi á sund­laugar­gestinum.

„Þá er mér sagt að sturtu­vörðurinn sé ný­kominn á vakt og hafi því ekki verið í vinnunni þegar þetta gerist. Stelpan mín sagði mér að enginn hefði verið í klefanum til að fylgjast með,“ segir Pétur. Sjálfur lét hann fylgja lýsingu dóttur sinnar á konunni á Face­book sem hann segir hafa verið um sjö­tugt og með blátt tattú á hægri öxl.

„Aðal­lega vegna þess að mér finnst mikil­vægt að fólk viti að svona tal sé ekki í boði. Ég vil ekki endi­lega af­sökunar­beiðni, enda er dóttir mín að mestu búin að jafna sig eftir þetta. En mér finnst mikil­vægt að það sé ein­hver um­ræða um þetta og vonandi þekkir hana mögu­lega ein­hver og getur þá talað um þetta við hana og sagt henni að þetta sé ekki í lagi, af því að maður talar ekki svona við tólf ára barn. Maður bara gerir það ekki.“

Pétur segir sig og fjöl­skyldu sína aldrei hafa lent í slíkum ras­isma áður. „Við höfum búið hér síðan 2017 og ég hef haft þetta bak við eyrað ef eitt­hvað svona skyldi koma fyrir, og þá er maður til­búinn í að taka um­ræðuna og ræða við ein­stak­linga. En það hefur aldrei gerst. Ég fékk hins vegar skila­boð frá konu eftir að ég birti færsluna um þetta í gær, hún var ætt­leidd hingað til lands og sagðist þekkja þetta svo vel. Sem er náttúru­lega bara ein­stak­lega miður.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×