Innlent

Á annan tug vantar sama­stað þegar Sam­hjálp missir hús­næðið

Árni Sæberg skrifar
Edda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samhjálpar.
Edda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samhjálpar. Bylgjan

Leigusamningi Samhjálpar við Félagsbústaði um húsnæði áfangaheimilisins Brúar hefur verið sagt upp. Framkvæmdastjóri samtakanna segir framtíð þjónustunnar í óvissu.

Áfangaheimilið Brú hefur verið rekið að Höfðabakka í Reykjavík í áratug en í janúar næstkomandi þarf Samhjálp að rýma húsnæðið. Edda Jóns­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­hjálp­ar, segir að róðurinn sé þungur þar sem samtökin þurfa sjálf að standa straum af miklum kostnaði við áfangaheimilið.

„Að óbreyttu þurfum við að loka í lok janúar. Þetta er úrræði sem við höfum séð um rekstur á, við höfum auðvitað notið leigukjara Félagsbústaða. En utanumhaldið og langtímameðferðarhluti áfangaheimila, eins og Brú, er auðvitað ekki greiddur af neinum opinberum aðila. Þannig að hann er greiddur með sjálfsaflafé Samhjálpar,“ segir Edda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samhjálpar.

Meira en bara þak yfir höfuðið

Átján skjólstæðingar Samhjálpar búa á Brú, þeir eru allir í viðkvæmri stöðu. Þeir horfa nú fram á það að missa þakið yfir höfði sér en þeir eru ekki einungis í húsnæðisþörf.

„Það sem er svona mikilvægt við svona úrræði, eins og áfangaheimili, er að þetta er auðvitað langtímameðferð. Þarna er fólk að fá eftirfylgni eftir meðferð við fíknisjúkdómum. Við vitum það, eins og þegar aðrir sjúkdómar eru, að það er mikilvægt að fá eftirfylgni til þess að geta náð sér almennilega á strik, áður en maður heldur út í lífið á nýjan leik,“ segir Edda.

Saknar fjármagns

Á Alþingi liggur fyrir frumvarp um leyfisskyldu og eftirlit með áfangaheimilum. Edda fagnar því en furðar sig á því hvers vegna áfangaheimili fá ekkert pláss í fjárlögum. Án aðkomu ríkisins þurfi kraftaverk til þess að starfsemi Brúar verði áfram haldið.

„Það þyrfti þá einhver að útvega okkur húsnæði sem væri þannig að við gætum nýtt það. Þetta byggir á því að það sé sjálfstæð búseta, við þurfum að hafa íbúðir með eldhúsi og baðherbergi fyrir hvern og einn, litlar íbúðir. Ég hef trú á því að þetta leysist einhvern veginn. Ég biðla til þjóðarinnar á þjóðhátíðardaginn sjálfan, að einhver stigi fram sem er aflögufær og getur aðstoðað okkur með þetta. Þetta er mjög mikilvægt og ég myndi segja að þetta hafi skilað miklum verðmætum til þjóðarinnar,“ segir Edda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×