Innlent

Tæp fjórtán hundruð mót­­mæla mögu­legri lokun Tjarnar­­bíós

Lovísa Arnardóttir skrifar
Guðmundur Felixson leikari hóf undirskriftasöfnun í dag vegna mögulegrar lokunar Tjarnarbíós.
Guðmundur Felixson leikari hóf undirskriftasöfnun í dag vegna mögulegrar lokunar Tjarnarbíós. Stöð 2

Alls hafa tæp 1.400 skrifað undir undirskriftalista þar sem kallað er eftir auknum stuðningi við Tjarnarbíó en í vikunni var greint frá því að fái leikhúsið ekki meira fjármagn og húsnæðið stækkað verði þau að skella í lás í haust.

Guðmundur Felixson, sviðlistahöfundur og leikari, er einn þeirra sem hefur brugðist við lokuninni og hóf í dag undirskriftasöfnun þar sem skorað er á stjórnvöld að auka stuðning við Tjarnarbíó „tafarlaust til að bjarga húsinu úr þeim vanda sem steðjar að og tryggja rekstur þar til framtíðar.“ Um kvöldmatarleytið hafa safnast um 1.400 undirskriftir. 

„Ég hóf undirskriftasöfnunina því ég fann fyrir því að það var mikill hugur í fólki eftir að fréttir byrjuðu að berast um að Tjarnarbíó ætti á hættu að loka. Mig langaði að búa til lista þannig að stjórnvöld gætu séð hversu mörgum er annt um sjálfstæðu sviðslistasenuna,“ segir Guðmundur ogað hans von sé að sem flestir skrifi undir.

Spurður af hverju leikhúsið skipti hann máli segir Guðmundur að Tjarnarbíó sé einn af mjög fáum stöðum sem sjálfstætt starfandi sviðslistafólk eins og hann geti leitað til með listsköpun sína.

„Ef leikhúsið lokar eru hundruð sviðslistafólks ekki með neinn stað til að sýna sýningar sínar og það væri bara algjörlega fáránlegt af stjórnvöldum að leyfa því að gerast.“

Margir með áhyggjur

Sara Marti Guðmundsdóttir, leikhússtjóri, hefur lýst verulegum áhyggjum af stöðunni og kallað eftir stuðningi bæði borgar og ríkis. 

Formaður Samtaka sjálfstæðra leikhúsa (SL) Orri Huginn Ágústsson, sagði í kvöldfréttum í gær að staðan væri grafalvarleg en var þó vongóður um að einhverjir myndu koma Tjarnarbíó til bjargar. Hann sagði leikhúsið „síðasta vígi sjálfstæðu senunnar“.

Í texta áskorunarinnar segir að Tjarnarbíó sé aðalsvið sjálfstæðu sviðslistasenunnar og ómissandi fyrir sviðslistalíf í landinu.

„Tjarnarbíó er heimili sjálfstæðra atvinnusviðslista og ég hreinlega get ekki ímyndað mér hvað verður um okkar gróskumiklu og blómlegu sjálfstæðu senu ef Tjarnarbíó verður leyft að grotna niður mikið lengur. SKRIFIÐ UNDIR!,“ segir Guðmundur í Facebook-færslu þar sem hann deilir undirskriftalistanum í dag en hægt er að skrifa undir listann hér. 


Tengdar fréttir

„Síðasta vígi sjálf­stæðu senunnar“

Ef ekkert breytist verðum síðustu tveimur leikhúsum sjálfstæðra leikhúsa lokað á árinu, Tjarnarbíó og Gaflaraleikhúsinu. Formaður Samtaka sjálfstæðra leikhúsa (SL) Orri Huginn Ágústsson, segir stöðuna alvarlega en segist þó vongóður um að einhverjir komi þeim til bjargar.

Sviðið selt undan Gaflar­a­leik­húsinu

Húsnæði Gaflaraleikhússins í Hafnarfirði var nýlega selt til þess að rýma fyrir stækkun hótels í nágrenninu. Leikhússtjórinn segir miður hvernig komið er fyrir sviðslistum á Íslandi og segist ekki myndi vilja vera ungur sviðslistamaður í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×