Innlent

Á­tján mánaða fangelsi fyrir kyn­­ferðis­brot gagn­vart stjúp­dóttur

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 9.júní síðastliðinn.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 9.júní síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í eins og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni og stórfellt brot í nánu sambandi.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa með ólögmætri nauðung misnotað freklega yfirburðarstöðu sína gagnvart níu ára gamalli stjúpdóttur sinni. Fram kemur í ákæru að hann hafi misnotað traust hennar og trúnað sem stjúpfaðir hennar og á alvarlegan hátt ógnað heilsu og velferð hennar og haft við hana önnur kynferðismök en samræði með því að stinga fingri inn í leggöng og endaþarm hennar.

Maðurinn hvorki neitaði né játaði sök og bar við minnisleysi vegna áfengisneyslu. Hann lýsti því hinsvegar fyrir dómi að hann teldi ólíklegt að stúlkan væri að ljúga.

Fram kemur í dómnum að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að draga framburð brotaþola í efa eða kastar rýrð á hann. Framburður stúlkunnar var metinn trúverðugur

Samkvæmt sakavottorði hefur maðurinn ekki áður sætt refsingu sem skiptir máli við ákvörðun refsingar í þessu máli. Við ákvörðun refsingar nú leit dómurinn til þess að brotaþolinn var níu ára gömul þegar maðurinn braut gegn henni.

Ákæra í málinu var ekki gefin út fyrr en rúmlega tveimur árum eftir að brotið var framið. Mat dómurinn það svo að um ástæðulausan drátt væri að ræða sem ákærða yrði ekki kennt um og hafði það áhrif þegar kom að ákvörðun refsingar.

Þótti réttilega ákveðin refsing vera fangelsi í 18 mánuði en með hliðsjón af alvarleika brotins taldi dómurinn að ekki væri tilefni til að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.

Manninum er jafnframt gert að greiða stúlkunni 1,2 milljónir króna í miskabætur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×