Innlent

Allra augu á boðuðum ráð­herra­kapal: „Ég hef ekki hug­mynd um það“

Árni Sæberg skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir veit ekkert um það hvenær hún verður dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir veit ekkert um það hvenær hún verður dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki hafa hugmynd um það hvenær hún tekur við embætti dómsmálaráðherra, sem henni var lofað í kjölfar myndunar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Tiltölulega átakalitlu vorþingi lauk í dag, sem þó náði að afgreiða fjölda mála. Nú þegar þingið fer í sumarleyfi beinist athyglin að ráðherrakapal Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Við myndun ríkisstjórnarinnar var það ákveðið að Jón Gunnarsson myndi gegna embætti dómsmálaráðherra fyrstu átján mánuði kjörtímabilsins en Guðrún Hafsteinsdóttir myndi svo taka við af honum. Þar með yrði Guðrún eini ráðherra Sjálfstæðisflokksins úr suðurkjördæmi.

Nú þegar átján mánuðir og tólf dagar eru frá því að önnur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum, situr Jón Gunnarsson sem fastast í stól dómsmálaráðherra.

Veist þú eitthvað hvenær það gæti gerst? Bjarni sagði að það mundi gerast á næstu dögum.

„Nei, ég hef ekki hugmynd um það,“ segir Guðrún. Rætt var við hana í kvöldfréttum Stöðvar 2:

Hún segist þó ekki efast um það að hún fá dómsmálaráðuneytið á endanum, enda hafi aldrei verið talað um neitt annað. Hún geti þó gengið í hvaða verkefni sem er og treysti sér til þess.

Sveitungar orðnir óþreyjufullir

Stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefur skorað á formann flokksins, Bjarna Benediktsson, að „efna gefin loforð um að gera Guðrúnu Hafsteinsdóttur að ráðherra“.

Ég verð að lýsa þakklæti yfir félögum mínum í kjördæminu. Ég vissi nú ekki af því að þetta stæði til en það lýsir auðvitað óþreyju fólks og Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi eftir þessu loforði, að það verði staðið við það,“ segir Guðrún.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.