Starfsemi íslenska sendiráðsins í Moskvu verður lögð niður frá og með 1. ágúst næstkomandi en þar hafa verið fimm staðráðnir starfsmenn og tveir íslenskir erindrekar. Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, mun fara til Kaupmannahafnar að sögn utanríkisráðherra.
„Við erum ekki að loka en leggjum starfsemina niður. Enda eru forsendur fyrir starfsemi sendiráðs gjörbreyttar þegar pólitísk tengsl eru nánast engin. Viðskiptaleg tengsl eru svo gott sem engin og menningarleg tengsl í algjöru lágmarki. Það þýðir að í þágu gagnkvæmni, sem almennt er farið eftir í þessum diplómatísku samskiptum, að þá gerum við kröfu um að þau minnki sína starfsmemi verulega hér í Reykjavík og sömuleiðis að starfseminni verði ekki stýrt af sendiherra.“
Um tuttugu starfsmenn og erindrekar hafa verið í rússneska sendiráðinu á Íslandi og að sögn Þórdísar dragast umsvifin saman um sjötíu prósent. Þetta verður gert frá og með 1. júlí og mun Mikhaíl V. Noskov, sendiherra Rússlands, fara heim á næstu vikum í samræmi við þessa ákvörðun.
„Við slítum ekki stjórnmálasambandi og lokum ekki sendiráðinu en gerum þetta svona í ljósi stöðunnar eins og hún blasir við.“

Rússneska sendiherranum var tilkynnt um þetta í morgun á fundi með utanríkisráðherra.
Hvernig tóku Rússar þessu?
„Það samtal gekk bara vel,“ segir Þórdís Kolbrún.