Karl Ingi Vilbergsson staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. RÚV greindi fyrst frá. Ákæran hafi ekki verið birt þeim Sindra Snæ Birgissyni og Ísidóri Nathanssyni en það verði gert á mánudag þegar hún verður þingfest.
„Þessi ákæra er sniðin að þeim athugasemdum sem gerðar voru í Landsrétti“segir Karl Ingi við fréttastofu. Embætti hans fékk sjö vikna frest í mars til að taka afstöðu til útgáfu nýrrar ákæru.
„Við byrjum á því að fá afstöðu til ákærunnar og svo ræðst framhaldið af því.“
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði frá köflum ákæru á hendur mönnunum tveimur, sem fjölluðu um hryðjuverk og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu. Eftir stóðu ákæruliðir vegna vopnalagabrota á hendur þeim báðum og vegna fíkniefnabrots og brots á lyfjalögum á hendur öðrum þeirra. Verða málin tvö sameinuð og rekin sem eitt mál fyrir hérasðdómi.
Í niðurstöðu Landsréttar kom fram að slíkir ágallar væru á tilgreiningu hinnar ætluðu refsiverðu háttsemi er varðaði hryðjuverk að erfitt væri að halda uppi vörnum fyrir þá Sindra og Ísidór. Sindri Snær var ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka en Ísidór fyrir hlutdeild í brotinu.
Símon Sigvaldason einn þriggja Landsréttardómara sagði vissulega galla á ákærunni en þó ekki slíkir að vísa þyrfti frá dómi. Hann taldi að fella ætti úr gildi úrskurðinn úr héraði.
Meirihlutinn taldi hins vegar að ákæruvald hafi þurft að tilgreina mun skýrar hvaða orðfæri og yfirlýsingar í samskiptum Sindra og Ísidórs sýndu að Sindri Snær hefði tekið ákvörðun um að fremja hryðjuverk.