Bíó og sjónvarp

Ætlar að hætta að leika og flytja til Frakk­lands

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Cranston hlakkar til að hætta að leika, kynnast nýjum vinum og drekka gott vín.
Cranston hlakkar til að hætta að leika, kynnast nýjum vinum og drekka gott vín. Getty

Leikarinn Bryan Cranston hefur tilkynnt um áform sín um að setjast í helgan stein. Stefnir hann á að hætta að leika árið 2026, þegar hann verður sjötugur, og flytja til Frakklands.

Þetta kemur fram í viðtali Cranston við tímaritið British GQ. Þar segist hann jafnframt hafa plön um að leggja niður framleiðslufyrirtæki sitt, Moonshine Entertainment.

Leikarinn er að sjálfsögðu frægastur fyrir hlutverk sitt sem Walter White í þáttaröðinni Breaking Bad. Eru þættirnir jafnan taldir þeir bestu sem framleiddir hafa verið, og ekki er leikur Cranston síðri. Nú segist hann hins vegar þurfa að komast í frí.

„Mig langar að eiga þessa upplifun. Mig langar að fara í dagsferðir og fýra svo upp í arninum og drekka vín með nýjum vinum og lesa engin handrit,“ segir Cranston. „Þetta verður ekki þannig að ég hugsi „Æ, ég skal lesa [handritið] og sé til hvað ég geri.“ Nei, þetta er pása. Þetta er stopp.“

Ætlar að leyfa eiginkonunni að ráða för

Leiklistarferlinn hóf hann árið 1980 og síðan þá hefur hann komið fram í yfir 160 verkefnum. Í viðtali GQ segist hann hafa fengið uppljómun á mótórhjólaferðalagi með bróður sínum, hætt við að verða lögregluþjónn og stefnt á leikarabrautina. 

Meðleikarar lýsa honum sem miklum fagmanni. Hann vakni alla morgna um hálf sex, fái sér kaffi og skelli sér í sturtu. Á setti fyrir Breaking bad segist Cranston hafa rakað skallann alla morgna og fundið „persónuleika minn leka af hausnum þar til handklæðið verður kalt.“

Bob Odenkirk, sem lék klækjalögmanninn Saul Goodman í Breaking Bad, ber honum söguna vel. 

„Ég lærði mest um leiklist með því að leika í sama herbergi og Bryan Cranston,“ er haft eftir Odenkirk sem nefnir smámunasemi Cranston sérstaklega og eiginleika hans til að gerbreyta um karakter á svipstundu.

Nú segir Cranston að tími sé kominn til að eyða meiri tíma með eiginkonu hans Robin Dearden, sem hafi undanfarna áratugi snúist í kringum verkefni hans.

„Hún hefur haldið í skottið á mér. Hún hefur verið þessi plús einn, kona leikarans. Hún hefur þurft að aðlaga sitt líf að mínu. Nú vil ég jafna það út, hún á það skilið,“ er haft eftir Cranston.


Tengdar fréttir

Bryan Cranston segist staddur á Íslandi

Bandaríski leikarinn Bryan Cranston virðist vera staddur á Íslandi ef marka má myndband sem hann deildi á Instagram-reikningi sínum í kvöld.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.