Lífið

Bubbi þver­neitar því að vera orðinn elli­líf­eyris­þegi

Jakob Bjarnar skrifar
Bubbi er 67 ára gamall í dag og brjálaður. Honum hugnast engan veginn að fá óumbeðið á sig titilinn ellilífeyrisþegi.
Bubbi er 67 ára gamall í dag og brjálaður. Honum hugnast engan veginn að fá óumbeðið á sig titilinn ellilífeyrisþegi. vísir/vilhelm

Bubbi Morthens, rokkkóngurinn sjálfur, frægasti reiði ungi maður landsins er nú orðinn 67 ára gamall. Sem þýðir að hann fær afslátt í strætó og frítt sund.

Þegar Vísir náði tali af Bubba í gær til að inna hann eftir því hvernig þessi tímamót legðust í hann stóð ekki á svörum frekar en fyrri daginn:

„Mér finnst þetta einelti og ofbeldi.“

Ha?

„Já. Ég get ekki staðsett mig þarna, ég ætla að vera alveg heiðarlegur með það. Þetta var klukkan í fimm í nótt. Og ég verð að viðurkenna það að það er bara engin leið fyrir mig að staðsetja mig þarna. Mér finnst mér ég vera ennþá bara í kringum þrítugt,“ segir Bubbi.

Vill gefa einhverjum „frítt-í-strætó“ kortið sitt

Og það verður að segjast alveg eins og er að það er ekki eins og gamalmenni sé á ferð í myndskeiðum sem Bubbi sjálfur birtir á Facebook-síðu sinni, sem er að lúberja boxpúðann í ræktinni.

„Já, líkamleg geta mín er einhvers staðar þar, þrjátíu til fjörutíu ára. Og þroski minn getur farið niður í að vera svona sex ára. Og einhvers staðar er ég með djúpa og fína visku, og öll lögin þar á milli. Ég er eins og laukur. Árhringirnir mínir; Bubbi er átta ára í dag. Já, hann hagar sér þannig, en svo get ég verið mjög djúpur og þroskaður á öðrum degi og sýnt önnur viðbrögð.“

Sextíu og sjö er stór tala. Þrungin merkingu. Þú ert orðinn löggilt gamlamenni með öllu sem því fylgir.

„Að fá frítt í strætó og sund, og fá stimpillinn ellilífeyrisþegi?! Og vera kallaður ellilífeyrisþegi! Haltu kjafti,“ segir Bubbi og gerir blaðamanni það algerlega ljóst að það sé titill sem honum hugnast ekki.

Bubbi ætlar að hafna þeim fríðindum sem því fylgja að vera orðinn löggilt gamalmenni. Þeir sem vilja fá frítt-í-sund-kortið hans er frjálst að gefa sig fram við hið opinbera og segja: Heyrðu, hann Bubbi segir að ég megi fá kortið.vísir/vilhelm

„Kallið mig lífsþega eða sigurvegara … en ellilífeyrisþega? Hver fann eiginlega uppá þessu, að smætta okkur viskuboltana með þessum hætti?“ spyr rokkkóngurinn forviða. Hann hafnar þessum titli af öllum lífs og sálar kröftum.

„Þetta er djók. Sá sem vill fá frítt í strætó og sund getur farið til hins opinbera og sagt að Bubbi hafi gefið sér allt sem þessum stimpli fylgir. Frítt í strætó! Frítt í sund! Hann getur sagt að Bubbi hafi gefið honum kortið sitt.“

(Uppfært. Vert er að geta þess, en það hefur valdið misskilningi, að ellilífeyrisþegar fá afslátt en ekki frítt í strætó. En það er aukaatriði.)

Hið svívirðilega orð ellilífeyrisþegi

Og þeim mun meira sem Bubbi hugsar þetta þeim mun hraksmánarlegra þykir honum að mega nú heita ellilífeyrisþegi.

„Má þetta? Nei. Ég segir það fullum fetum að það er ljótt að klína þessu á okkur unglingana. Stórmerkilegt að ég skuli vera 67 ára og vera kominn með svona djöfullsins lúðastimpil. Maður trúir þessu ekki. Í alvörunni. Og hvaðan kemur þetta?“

Bubbi telur þetta gersamlega úr sér gengna nafngift og sjálfsagt til komið á þeim tíma þegar fólk var gersamlega búið að slíta sér út, búið á sál og líkama, eða allir sem ekki hétu Zoega eða Thors, eftir þrældóm og leit út eins og egypskar múmíur á sterum um fimmtugt. Og andaðist svo í kringum sextugt satt lífdaga. Bubbi telur orðið niðrandi á vorum tímum þegar full ástæða er til að endurmeta lífsgetu og lífskraft fólks á miðjum aldri.

Þó það sé afmælisdagur sleppir Bubbi ekki úr tíma í ræktinni og í dag var teygjudagur.vísir/vilhelm

„Ellilífeyrisþegi. Ekki bara er þarna elli heldur er eins og maður sé betlari líka. Að maður hafi betlað sig inn í ellina? Hvað er það? En að öllu gamni slepptu, ég get ekki tengt við þetta. Mér er það lífsins ómögulegt. Ég get það ekki. Og er bara heiðarlegur með það. Alla veganna, þeir sem vilja klína þessu á mig: Mission impossible.“

Sumar jarðarfarir bráðskemmtilegar

Talið berst að dauðanum sem er kannski einkennileg vending í ljósi þess að Bubbi hafnar því að mega heita ellilífeyrisþegi. En þegar Vísir ræddi við Bubba var hann nýkominn frá því að spila og syngja við enn eina jarðarförina. Bubbi hefur verið önnum kafinn við slíka spilamennsku að undanförnu.

„Þannig hefur þetta verið nú í um ár, því miður, það er faraldur í gangi meðal ungra manna og kvenna.“

Þó Bubbi hafni því að mega teljast ellilífeyrisþegi þá hafnar hann ekki dauðanum. Hann segir að í flestum tilfellum sé það svo að hann syngi við útfarir ungs fólks, sem tekur alltaf á en svo gerist það stöku sinnum að hann er kallaður til að spila yfir fólki sem hefur náð háum aldri.

Bubbi hefur sungið í óteljandi jarðarförum á undanförnu ári eða svo. Það er faraldur, ópíðóðafaraldur og ungt fólk fellur í stórum stíl. En ef verið er að jarðsyngja einhvern sem kominn er á efri ár þá geta jarðarfarir verið skemmtilegar.vísir/vilhelm

„Það eru oft bráðskemmtilegar jarðarfarir, allir kátir og sáttir, viðkomandi búinn að lifa lengi og skemmtilegar sögur sagðar. Dauðinn er magnað fyrirbæri. Hann er eiginlega nánast merkilegri en lífið. Auðvitað endanlegur að því leytinu til að vitundin og manneskjan – þessi alheimur sem hver og ein manneskja er – hverfur inn í einhverja orku. Eftir seinasta andvarpið fer hún út í kosmosið, ímynda ég mér.“

Óttast dauðann ekki

Bubbi ítrekar að honum finnist dauðinn forvitnilegur og dauðastundin spennandi atburður.

„Það er mikill ótti og tabú gagnvart dauðanum. Ég ímynda mér hann með glott á vörum, hann safnar fólki saman í kirkjur og þar situr hann og mælir okkur út. Hann er út um allt, með okkur frá fæðingu og labbar við hliðina á okkur, mætir alltaf öðru hvoru, hann er eins og frændinn sem enginn vill þekkja. En mér finnst hann forvitnilegur. 

En maður er forritaður þannig að frumurnar okkar vilja keyra þessa útgerð sem mannslíkaminn er áfram, ekki til að deyja, heldur lifa. Þess vegna bregst fólk illa við en þegar upp er staðið, ef við þurfum ekki að þjást í einhvern óratíma, þá er þetta gríðarlega spennandi ferðalag.“

Já. Í listasögunni, ekki síst rómantíska skeiðinu, er þekkt sú hugmynd að skáldin yrki til að öðlast eilíft líf. Drifkrafturinn er þá kannski ótti við dauðann og þegar við bætist að þú hoppar eins og óður maður í kringum boxpúða, í toppformi, gæti læðst að manni sá grunur að þú sért skíthræddur við dauðann?

„Nei!“ segir Bubbi afdráttarlaust. „Ég var alltaf hræddur við lífið, aldrei við dauðann. Það tók mig mörg ár að losna við það. Nei dauðinn maður, hann er svo gersamlega pottþéttur, niðurnjörvaður, með þetta á hreinu og það er ekkert sem klikkar hjá honum. 

Bubbi óttast dauðann ekki. Hann kemur, stundvís, hvorki mínútu of snemma né of seint. Það er pottþétt og hann mun fara um okkur mildilegum höndum.vísir/vilhelm

Við höfum bara eina sögusögn um einn mann sem sigraði dauðann og steig upp til himna. Og það er bara sögusögn. Vottar ekki fyrir því að maður trúi þeirri sögu. Hún er skemmtileg og getur hjálpað fólki en lífið er … það er kúnstin. Þegar ég náði því loksins að hætta að vera hræddur við lífið fór ég að njóta þess að vera til.“

Listsköpun ótti við lífið en ekki dauðann

Bubbi hefur greinilega velt þessu talsvert fyrir sér.

„Spriklið mitt í ræktinn er til að fá sem mest út úr því að vera lifandi og í lagi. En um leið, þá ertu auðvitað að setja hælinn í svörðinn. Ég vil helst ekki kútveltast niður í kistuna heldur renna hægt niður brekkuna með hælana í svörðinn og lenda nokkurn veginn mjúklega.“

Bubbi segist hafa verið tiltölulega ungur þegar hann náði að verða dús við dauðann.

„Ég lenti í einhverjum slysum sem voru þessleg að það munaði ekki miklu, á mínum yngstu árum var hárfín lína að ég lifði og þar af leiðandi; dauðinn er þarna og hann mun koma og hann mun ekki hvika. Og það er sama hvernig þú hugsar þetta, hann mun ná þér. 

Og þá er það bara punktur. En lífið fannst mér lengi ógnvænlegt. Ég get kannski sagt að ég hafi verið kominn yfir fimmtugt þegar ég fór að fatta það. Sköpunargáfa mín er ofurskammtur af einhverri gáfu sem er í heilanum á mér sem ég næ ekki að stoppa,“ segir Bubbi og setur hana alls ekki í samhengi við angist eða dauðahræðslu. Eiginlega þvert á móti.

„Þú ert aldrei meira lifandi en þegar þú skapar. En um leið er sköpun; að semja, syngja, skrifa, mála … hvað sem er, einskonar flótti frá lífinu. Ekki frá dauðanum.“

Kraftaverk að hafa náð þessum aldri

Bubbi segir nærtækara að skoða þetta þannig. Og sé litið til sögu listamanna þá er þar rauður þráður sá að þeir séu að takast á við einhvern harm.

Bubbi segist ekki æfa svona stíft vegna þess að hann óttast daginn, heldur til að geta notið lífsins.vísir/vilhelm

„Eitthvað varð þess valdandi að þú fórst að skapa. Ég hefur heyrst svo marga tala um þetta að þeir hafi verið að skapa því þeir voru að flýja sársauka, áföll sem þeir hafa mætt í lífinu. Flótti minn var ekki frá dauðanum heldur lífinu. Nú er ég staddur á þeim stað að mér finnst tryllingslega gaman að lifa. Og ætla að vera þar. Og vera í stuði.“

En má ekki óska þér til hamingju, ætlarðu ekki að halda uppá þetta?

„Jújú. Ég held bara uppá þetta með börnum og eiginkonu. Þegar ég var fimmtugur hélt ég tónleika. Ég ætla að gera það aftur þegar ég verð sjötugur. Yfirskriftin veður: Má þetta? En samt, lífið er æðislegt og við eigum að vera þakklát fyrir hvern einasta dag þar til ferðalagið mikla hefst og það verður nú eitthvað.“

Bubbi segir reyndar að það hafi verið afrek að hann hafi náð þessum aldrei því það leit ekki út fyrir það um tíma. Fyrir fimm árum lá hann til dæmis uppá gjörgæslu og var ekki hugað líf. Slagæð var í sundur og ekki hægt að stöðva blæðingu. Blóðið gúlpaðist úr vitum hans.

„Þetta var magnað. Þarna kom Suður-Amerískur hjartaskurðlæknir og sérfræðingur í aðgerðum í gegnum æðar. Hann fer inn í æðar með myndavélar og gerir kúnstir.“

Fernando bjargaði lífi Bubba meðan Fernando með Abba ómaði

Bubbi var ekki til stórræðanna. Hann átti að syngja með Dimmu á Menningarnótt en endaði uppá spítala þar sem ekki var hægt að stöðva blæðinguna sem var stöðug í þrjá sólarhringa. 2018.

„Þá kom þessi maður, Fernando frá Perú, og tók að sér að gera aðgerð á mér klukkan sjö um morgun. Svo var eitthvað annað teymi til staðar ef þetta færi úrskeiðis; ég yrði þá opnaður analog en ekki digital. Þetta gekk vel. Hann fann ekki gatið en bræddi saman tvær æðar.“

Líf Bubba hefur verið þannig að oft hefur staðið tæpt en hann er dús við dauðann.vísir/vilhelm

Bubbi hefur síðan verið í sambandi við Fernando og ber honum vel söguna, segir hann skrautlegan. Bubbi hefur boðið honum á tónleika og verið í tölvupóstsamskiptum við lækninn sem segist hafa verið feginn að hafa bjargað lífi hans.

„En ég var óhræddur. Algerlega gersamlega slakur. Ég lýg engu um það. Ég get svarið það. Gerð lag um þetta, þar sem er þessi lína sem enginn virðist sjá, gatan sem lífið og dauðinn ganga á.“

Deginum fyrir aðgerðina gat Bubbi ekki sofið. Það blæddi ofan í hann og hann horfði í hálfgerðu móki út um glugga Borgarspítalans, yfir Fossvoginn.

„Þá spurði ég sjálfan mig: Ertu hræddur við að deyja? Það var algjör værð yfir mér og ég svaraði sjálfum mér: Nei. Þetta hefur verið geðveikt líf sem ég hef lifað.“

Þegar til aðgerðarinnar kom fékk Bubbi smávægilegt kvíðakast, þegar hann þurfti að undirrita einhverja pappíra. Og var spurður hvort hann vildi svæfingu.

„Nei, dröggið mig bara en ég vil fylgjast með. Þau sögðust vilja gera hvað sem er svo mér liði sem best betur og ég bað þau þá um að spila fyrir mig Fernando með Abba. Og það hljómaði meðan Fernando bjargaði lífi mínu,“ segir Bubbi og hlær.

Dauðinn er stundvís og pottþéttur

Hann segist hafa verið orðinn alveg ruglaður þar og þá en ánægður með að hafa fengið þessa ósk uppfyllta. Og skilaboð Bubba til blaðamanns og lesenda eru þau að vera ekki skelkuð við dauðann.

„Engar áhyggjur. Ég er sannfærður um að þetta er bara eins og að fara að sofa, og við höfum aldrei neina vitneskju um það, þú bara sofnar. Svo þegar við blásum frá okkur síðasta andardrættinum losnar einhver kraftur sem fer út í kosmosið.“

Þó Bubbi hafni því að mega nú heita ellilífeyrisþegi og löggilt gamalmenni þá hafnar hann dauðanum ekki. Og segir ekkert að óttast.vísir/vilhelm

Bubbi segist hafa lesið það sem hugsuðurinn Stephen Hawking hefur skrifað um þetta en hann taldi miklar líkur á því að til væru ýmsir hliðarveruleikar. Við værum í einum veruleika en það væru aðrir samsíða.

„Hann var ekkert að bulla með þetta, var fúlasta alvara. Ef við lifum lífinu til fullnustu þurfum við ekki að hafa neinar stórkostlegar áhyggjur af þessu. Aðalatriði er að njóta. Dauðinn kemur og hann er svo pottþéttur að hann kemur ekki mínútu of seint, ekki sekúndu of snemma, stundvís og hann tekur okkur mildilega.“

Bubbi segist hafa velt þessu mikið fyrir sér og segir hollt og gott að hugsa dauðann sinn, setjast niður einn með sjálfum sér og hafa eftirfarandi yfir eins og möntru.

„Ég mun deyja og það er endanlegt og lífi mínu lýkur þegar ég dey en það eru ekki endalokin. Ég ætla að bjóða dauðann velkominn, komdu og taktu mig þegar minn tími er kominn.

Þetta kom mér út úr þessum kvíða sem við öll höfum gagnvart dauðanum. Svo sér maður það, þegar maður stendur við hliðina á opnum kistum í kirkjum, þegar maður syngur og það vantar ekkert uppá það hjá mér, og horfir niður í kistuna: Þegar maður er dáinn blasir við að við erum við bara hylki. Þetta er kafarabúningur. Engar áhyggjur!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×