Fyrir sigurinn hlaut hin tvítuga Gígja Marín eina milljón króna.
„Ég er auðvitað himinlifandi með niðurstöðuna,“ segir Gígja Marín sigurreif í tilkynningu frá SS. Aðspurð segist hún hafa verið að vinna að tónlist í tvö til þrjú ár en sigurlagið, I know, er fyrsta lagið sem hún gefur út ein.
„Ég var í unglingahljómsveit fyrir nokkrum árum sem gaf út eitt lag,“ bætir Gígja við brosandi og segir planið nú vera að hella sér út í tónlistina af fullum krafti.
Hafþór Úlfarsson, deildarstjóra markaðsdeildar SS, segir að Gígja Marín sé lifandi dæmi um það sem Skúrnum var ætlað að gera.
„Planið var að draga lítt þekkt tónlistarfólk út úr Skúrnum og fram í sviðsljósið þar sem við hin fáum að njóta hæfileika þeirra. Gígja Marín er sannarlega verðugur sigurvegari í þessum hluta keppninnar og lagið frábært.“
Þrjár útgáfur í höndum þjóðarinnar
Keppninni um besta frumsamda lagið er þar með lokið en keppnin um bestu útgáfu SS pylsulagsins mun halda áfram fram í ágúst.
„Þjóðin, ásamt dómnefnd, hefur nú valið þrjár útgáfur af pylsulaginu til áframhaldandi þátttöku. Í sumar munum við því sýna þrjár mismunandi útgáfur af sömu auglýsingunni fyrir SS pylsur, hver með mismunandi útgáfu af laginu. Þjóðin kýs svo sína uppáhalds útgáfu sem verður kynnt um miðjan ágúst,“ segir Hafþór Úlfarsson í tilkynningu.
Sigurvegararnir fá í sinn hlut tvær milljónir króna.