„Það var skelfilegt eiginlega, svo ég segi það eftir á,“ segir Egill í viðtalinu um greininguna sem reyndist honum mikið sjokk. Þó segist hann þakklátur fyrir að hafa ekki veikst fyrr. „Ég hefði ekki viljað vera 20 árum yngri í miðjum career og allt það,“ segir hann.
Síðasta haust sagði Egill frá því á facebook að hann hafði greinst með Parkinson sjúkdóminn. Parkinson er taugahrörnunarsjúkdómur sem 600-800 Íslendingar glíma við.
Egill ræðir störf sín með Stuðmönnum og fimmtíu ára langan feril hljómsveitarinnar. Hann segir sérkennilega tilfinningu hafa sprottið þegar fyrsta plata Stuðmanna, Sumar á Sýrlandi, sló í gegn sumarið 1975. Hann segir Stuðmennina vænstu drengi en fyrirferðarmikla. „Hljómsveitir eru eins og hjónabönd, það er svona hífa og slaka og þeir sem eru skynsamir þeir slaka meira,“ segir hann.
Egill segir leiklistina hafa átt vel við sig. Þegar hann hafði vakið athygli með Stuðmönnum og Þursaflokknum var skortur á leikurum á hans aldri á Íslandi. „Þannig að ég fór inn í kvikmyndavorið, íslenska.“
„Ég hef svona verið að reyna að lifa með þessu,“ segir Egill um Parkinson sjúkdóminn. Hann bindur vonir við nýjar rannsóknir á mögulegum lækningum við sjúkdómnum. „Ég trúi því að þeir muni finna eitthvað fljótlega, vonandi.“
Hann segist þakklátur fyrir að geta talað og haldið augunum opnum. „Ég er stundum betri, stundum verri.“