Enski boltinn

Man. United og Liverpool enn á undan Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes og Casemiro fagna hér saman marki hjá Manchester United.
Bruno Fernandes og Casemiro fagna hér saman marki hjá Manchester United. Getty/Nathan Stirk

Manchester United er verðmætasta félagið í ensku úrvalsdeildinni og það næstverðmætasta í heimi á eftir Real Madrid samkvæmt árlegri úttekt Forbes.

Forbes birti í gær tölurnar yfir verðmæti fótboltafélaga heimsins en bæði Real Madrid og Manchester United voru þar að komast yfir sex milljarða dollara verðmatið í fyrsta sinn.

Real Madrid er 6,07 milljarða Bandaríkjadala virði eða um 857 milljarða virði talið í íslenskum krónum. Spænska félagið heldur sæti sínu á toppnum frá því í fyrra en virði félagsins hækkað um nítján prósent.

Manchester United er talið vera 6,04 milljarða dala virði og hefur verðmæti félagsins hækkað um þrjátíu prósent síðan á síðasta ári.

Glazer-fjölskyldan setti félagið á sölu í nóvember. Ekki liggur fyrir hvort það verði Sheikh Jassim bin Hamad Al Thani eða Sir Jim Ratcliffe sem verði nýi eigandinn hjá Manchester United.

Forbes hefur tekið saman þennan lista árlega frá árinu 2004 og það eru bara Manchester United og Real Madrid sem hafa alltaf verið inn á topp fimm.

Hin félögin inn á topp fimm að þessu sinni eru Barcelona, Liverpool og Manchester City.

Þrátt fyrir alla velgengni Manchester City á síðustu árum og fimm Englandsmeistaratitla á sex árum þá eru Manchester United og Liverpool enn á undan Manchester City á þessum lista.

Enska úrvalsdeildin á sex af tíu efstu á listanum en Chelsea, Tottenham og Arsenal eru einnig inn á topp tíu ásamt Bayern München og Paris Saint Germain.

 • Topp tíu listinn hjá Forbes:
 • 1. Real Madrid - 6,07 milljarðar dollara
 • 2. Manchester United - 6 milljarðar dollara
 • 3. Barcelona - 5,51 milljarðar dollara
 • 4. Liverpool - 5,29 milljarðar dollara
 • 5. Manchester City - 4,99 milljarðar dollara
 • 6. Bayern Munich - 4,86 milljarðar dollara
 • 7. Paris St-Germain - 4,21 milljarðar dollara
 • 8. Chelsea - 3,1 milljarður dollara
 • 9. Tottenham Hotspur - 2,8 milljarðar dollara
 • 10. Arsenal - 2,26 milljarðar dollaraFleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.