Innlent

„Þetta er eigin­lega bara enda­laus gleði“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Vitatorgsbandið var í dag heiðrað fyrir störf sín, en bandið spilar vikulega fyrir eldri borgara og þiggur ekki krónu fyrir. Hljómsveitarmeðlimur á tíræðisaldri segir félagsskapinn ómissandi. 

Vitatorgsbandið, sem hefur í 20 ár leikið fyrir dansi og söng, var í dag heiðrað af velferðarsviði Reykjavíkurborgar fyrir óeigingjarnt starf sitt. Hljómsveitina skipa eldri borgarar og aðdáendur dansa dátt við tónlistina.

„Það var Sigríður Norðkvist sem upphaflega stofnaði þessa hljómsveit. Ég held hún hafi verið ein fyrst en síðan fór að hlaðast utan um hana,“ segir Guðrún Guðjónsdóttir í Vitatorgsbandinu.

Skora á aðra að gefa af sér

Í dag eru hljómsveitarmeðlimir átta talsins og spila líkt og fyrr segir alla miðvikudaga í Samfélagshúsinu á Vitatorgi og þiggja ekki krónu fyrir.

„Við leggjum þetta til samfélagsins og skorum á aðra að gera slíkt hið sama.“

Hún segir bandið aðallega spila gömlu góðu dægurlögin, en síðasta miðvikudag hvers mánaðar er sungið.

Ekkert rapp hjá bandinu

Þið eruð ekkert í rappinu?

„Nei, mér finnst allt í lagi með rappið, ég kann nú bara vel við það en ég held að ég fari nú ekki að rappa.“

Elsti hljómsveitarmeðlimurinn er 92 ára og leikur létt á trommuna.

„Það er mjög gaman, gott fólk. Gott að vera hérna,“ segir Sigurður Guðmundsson 92 ára, inntur eftir því hvernig það sé að vera meðlimur svo flottrar hljómsveitar.

Endalaus gleði

Er gefandi að vera í svona hljómsveit?

„Það gefur manni bara kraft og gleði, þetta er eiginlega bara endalaus gleði,“ segir Guðrún.

„Þetta er bara lífð og tilveran. Og bara félagsskapurinn, að vera innan um fólk. Ég hef alltaf verið svona félagslyndur,“ segir Óskar Björnsson, 75 ára.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.