Innlent

Deilu­aðilar funda í Karp­húsinu í kvöld

Árni Sæberg skrifar
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Vísir/Arnar

Forystumenn samningsaðila BSRB og Samtaka íslenskra sveitarfélaga koma saman í Karphúsinu í kvöld, að beiðni aðstoðarríkissáttasemjara, sem sér um deiluna.

Kjarasamningsviðræður hafa verið í hnút undanfarið og BSRB hefur beitt hinum ýmsu verkfallsaðgerðum, sem hafa meðal annars haft áhrif á skólastarf og starfsemi hafna.

Síðast var boðað til fundar á mánudaginn fyrir viku en Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir þann fund ekki hafa skilað neinum árangri.

„Það er auðvitað alltaf mikilvægt að halda samtalinu gangandi. Eins og ég nefndi þá fannst mér við hafa farið skref aftur á bak. Þannig að það er varla annað hægt að trúa því að við munum þokast eitthvað áfram í kvöld,“ segir hún í samtali við fréttastofu.

Þá segir hún að viðsemjendur hennar hafi lítinn samningsvilja sýnt undanfarið en að mikilvægt sé að landa kjarasamningum sem fyrst. „Áður en verkfallsaðgerðir okkar stigmagnast.“

Blása sér byr í brjóst í kvöld

Fyrir fundinn í Karphúsinu mun BSRB standa fyrir baráttufundi.

„Við verðum með baráttufund í Bæjarbíói í Hafnarfirði í kvöld klukkan hálf sex til hálf sjö. Þar ætlum við að safnast saman, bæði þau sem eru í verkföllum og stuðningsfólk þeirra. Það verða tvær baráttukonur sem eru í verkfalli, Aníta og Magdalena, sem verða með ræðu. Svo ætlum við að vera með tónlistaratriði til þess að blása okkur byr í brjóst,“ segir Sonja Ýr.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×