Lífið

Skipu­lags­yfir­völd ó­sátt við Damon Albarn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Damon Albarn kom fram á Coachella tónlistarhátíðinni fyrr á þessu ári.
Damon Albarn kom fram á Coachella tónlistarhátíðinni fyrr á þessu ári. Frazer Harrison/Getty Images

Ís­lenski ríkis­borgarinn og popp­stjarnan Damon Albarn á í deilu við sveitar­stjórn í De­von sýslu í suður­hluta Eng­lands vegna varmadælu sem hann hefur komið fyrir utan heimili sitt í sýslunni. Nefndin segir tón­listar­manninn hafa komið dælunni fyrir án leyfis.

Það er breska götu­blaðið Daily Mail sem greinir frá erjunni. Þar kemur fram að nefndin hafi miklar á­hyggjur af há­vaða­mengun frá dælunni en fyrir er tón­listar­maðurinn þegar með aðra dælu tengda við hús sitt. Segir nefndin að um sé að ræða gríðar­lega fal­legt náttúru­svæði sem eigi að vera hægt að njóta í ró og næði.

Í um­fjöllun breska götu­blaðsins kemur fram að Albarn hafi fengið byggingar­leyfi í októ­ber 2021 til þess að breyta gömlu bónda­býli í heimili sitt, gallerí og vinnu­stofu. Þá sótti tón­listar­maðurinn svo um leyfi fyrr á þessu ári til þess að bæta við þó nokkrum hlutum við heimili sitt, meðal annars áður­nefndri varmadælu.

Ljóst er að tón­listar­maðurinn kann vel við sig í ró og næði en hann hefur um ára­bil átt hús í Grafar­voginum í Reykja­vík. Þar hefur hann nýtt tímann vel, samið tón­list og rölt um fjöruna. Þess er getið í um­fjöllun breska miðilsins að tón­listar­manninum sé um­hugað um um­hverfi sitt og að varmadælurnar séu um­hverfis­vænar.

Miðillinn hefur þrátt fyrir það eftir nefndar­manni í sveitar­stjórninni í De­von að kassinn utan um varmadælu Albarn sé þrír fer­metrar að stærð og rúmir 50 sentí­metrar að hæð. Hún sé því ekkert augna­yndi, auk þess sem há­vaði af henni sé allt­of mikill.

Þá segir nefndar­maðurinn að hin nýja varmadæla sé auk þess utan þess svæðis sem Albarn hafi fengið leyfi til að byggja á og þá veldur það nefndinni von­brigðum að hún sé upp sett til þess að hita hús sem tón­listar­maðurinn hyggst ekki nýta til einka­nota, heldur í við­skipta­legum til­gangi, að því er fram kemur í um­fjöllun götu­blaðsins.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.