Það er breska götublaðið Daily Mail sem greinir frá erjunni. Þar kemur fram að nefndin hafi miklar áhyggjur af hávaðamengun frá dælunni en fyrir er tónlistarmaðurinn þegar með aðra dælu tengda við hús sitt. Segir nefndin að um sé að ræða gríðarlega fallegt náttúrusvæði sem eigi að vera hægt að njóta í ró og næði.
Í umfjöllun breska götublaðsins kemur fram að Albarn hafi fengið byggingarleyfi í október 2021 til þess að breyta gömlu bóndabýli í heimili sitt, gallerí og vinnustofu. Þá sótti tónlistarmaðurinn svo um leyfi fyrr á þessu ári til þess að bæta við þó nokkrum hlutum við heimili sitt, meðal annars áðurnefndri varmadælu.
Ljóst er að tónlistarmaðurinn kann vel við sig í ró og næði en hann hefur um árabil átt hús í Grafarvoginum í Reykjavík. Þar hefur hann nýtt tímann vel, samið tónlist og rölt um fjöruna. Þess er getið í umfjöllun breska miðilsins að tónlistarmanninum sé umhugað um umhverfi sitt og að varmadælurnar séu umhverfisvænar.
Miðillinn hefur þrátt fyrir það eftir nefndarmanni í sveitarstjórninni í Devon að kassinn utan um varmadælu Albarn sé þrír fermetrar að stærð og rúmir 50 sentímetrar að hæð. Hún sé því ekkert augnayndi, auk þess sem hávaði af henni sé alltof mikill.
Þá segir nefndarmaðurinn að hin nýja varmadæla sé auk þess utan þess svæðis sem Albarn hafi fengið leyfi til að byggja á og þá veldur það nefndinni vonbrigðum að hún sé upp sett til þess að hita hús sem tónlistarmaðurinn hyggst ekki nýta til einkanota, heldur í viðskiptalegum tilgangi, að því er fram kemur í umfjöllun götublaðsins.