Hér má sjá tónlistarmyndbandið. Leikstjóri er Vikram Pradham og grafík í höndum Selmu Kjartansdóttur.
Mikið ævintýri fyrir mæðgurnar
„Þetta er í raun tökulag, heitir upprunalega A life that’s good, en er með nýjum texta eftir Braga Valdimar, sem er auðvitað einn besti lagahöfundur landsins og víðar,“ segir Jóhanna Guðrún. Þegar þetta lag kom til þeirra kom upp hugmynd að gera það að dúett.
„Einhvers staðar í ferlinu kom upp að Margrét myndi syngja þetta með mér. Hún er svo klár í þessu frá náttúrunnar hendi og þetta var mikið ævintýri fyrir okkur báðar. Hún var rosa spennt, henni finnst þetta skemmtilegt og ég hefði aldrei otað þessu að henni. Þetta er hugmynd sem hún var alla leiðina glöð með og hún naut sín í botn.“

Sterkar taugar til íslensku sveitarinnar
Jóhanna upplifir sterka tengingu við íslenska sveit og vildi því taka upp tónlistarmyndbandið á sveitabæ sem hún er að hluta til alin upp á.
„Þetta er sveitabær sem vinafólk pabba eiga í Borgarfirði en ég var þar mikið sem krakki og á svo mikið af fallegum minningum þaðan. Náttúran, æskan og dýrin ýttu undir það hvað mér fannst tilvalið að við myndum taka þetta saman upp þarna. Tökurnar gengu ótrúlega vel og við nutum okkar í botn.“
Hún segir tökudaginn hafa verið ótrúlega skemmtilegan fyrir þær mæðgur og fólkið á bænum hafi verið mjög spennt fyrir þessu.
„Ég elska að vera þarna í sveitinni. Þetta er líka svo dásamleg minning fyrir okkur mæðgurnar. Hún gerir þetta svo vel og verður vonandi alltaf stolt af þessu.“

Ári yngri en Jóhanna var
Aðspurð hvort dóttir hennar stefni á feril í tónlistinni segir Jóhanna Guðrún að það sé engin pressa á heimilinu.
„Hún hefur allavega hæfileikana til þess. Svo sér maður bara hvernig áframhaldið verður og hvað hún vill gera. Hún er náttúrulega bara sjö ára og eins og staðan er núna þá elskar hún að syngja og dansa. Ég var ári eldri en hún þegar ég fór að vinna í tónlistinni þannig að hún er aðeins á undan mér,“ segir hún kímin.
Það er ýmislegt spennandi á döfinni hjá Jóhönnu Guðrúnu og sumarið verður heldur betur viðburðaríkt.
„Ég fer aldrei í frí,“ segir hún og hlær. „Ég er á fullu í brúðkaupunum í sumar og tónleikahaldi og það eru alltaf einhver járn í eldinum,“ segir Jóhanna Guðrún að lokum.
Hér má hlusta á lagið á Spotify.
Mæðgurnar mættu í spjall til Ívars Guðmundssonar á Bylgjunni sem heyra má að neðan.