Innlent

Lög­reglu­maður sagðist blaða­maður við eftir­grennslan um list­gjörning Odee

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í tölvupóstunum hrósaði Gísli Odee fyrir gjörninginn, á ensku.
Í tölvupóstunum hrósaði Gísli Odee fyrir gjörninginn, á ensku.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Gísli Jökull Gíslason sagðist vera „sjálfstætt starfandi blaðamaður“ í tölvupóstum til listamannsins Oddds Eysteins Friðrikssonar, þegar hann reyndi að afla upplýsinga um gjörninginn We're Sorry.

Frá þessu greinir Heimildin.

Oddur, sem kallar sig Odee, steig fram á dögunum sem ábyrgðarmaður skáldaðrar opinberrar afsökunarbeiðni Samherja, þar sem beðist er afsökunar á framgöngu fyrirtækisins í Namibíu. Um var að ræða útskriftarverkefni Odee við Listaháskóla Íslands.

Það var Odee sem greindi frá tilraunum lögreglumannsins í samtali við Heimildina og sagði Gísla Jökul í raun hafa orðið hluta af verkinu með tölvupóstum sínum, sem voru sendir úr netfangi hans hjá lögreglunni.

„Verkið er concept verk og það er spegill á samfélagið og einstaklinga. Hvernig einstaklingar bregðast við verkinu varpar ljósi á aðstæður í samfélaginu og viðbrögðin við verkinu eru það sem það framkallar. Það er því ekkert sem kemur mér á óvart og ekki þetta heldur,“ segir Odee.

Heimildin hafði samband við Gísla Jökul, sem sagðist ekki hafa verið með málið til rannsóknar heldur hefði tilkynning komið inn og honum þá þótt forvitnilegt að vita hver stæði að baki gjörningnum.

Í svörum sínum við spurningum Heimildarinnar reyndi hann að réttlæta það að skrifa undir sem sjálfstætt starfandi blaðamaður með því að vísa til aðsendra greina sem hann hefði fengið birtar í fjölmiðlum.

„Það er ekki að vera frílans blaðamaður að skrifa aðsendar greinar í blöð Jökull,“ sagði blaðamaður Heimildarinnar í samtalinu við lögreglumanninn, sem svaraði:

„Stoppaðu, nei nei, það eina sem er verið að gera er bara að sjá hver það er sem stendur á bak við þessa síðu. Þessi síða er augljóslega fölsk. Ergo, þá tel ég ekki ástæðu til að útskýra mjög nákvæmlega hvað ég er að gera. Ég er bara að sjá hvort það er einhver eðlileg skýring á bak við hana, en það er engin rannsókn á þessari síðu.“

Gísli Jökull sagðist ekki hafa leitað til yfirmanna sinna áður en hann sendi tölvupóstana.

Umfjöllun Heimildarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×