Innlent

Fara með hval­veiði­leyfi til EFTA

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Védís Eva Guðmundsdóttir lögfræðingur. 
Védís Eva Guðmundsdóttir lögfræðingur.  Vísir/Steingrímur Dúi

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa vísað veitingu hvalveiðileyfis til Hvals hf. til eftirlitsstofnunar EFTA. Lögfræðingur samtakanna segist telja að leyfið stangist á við Evrópureglur og vonar að stofnunin bregðist hratt við.

Hvalur hf. er með veiðileyfi út þetta ár, en Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir að mikið þurfi að koma til svo leyfið fáist endurnýjað. Leyfið var veitt árið 2019 af Kristjáni Þór Júlíussyni, þáverandi ráðherra.

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa nú beint leyfisveitingunni til ESA, eftirlitsstofununar EFTA, til að láta reyna á hvort hún standist Evrópureglur.

„Þetta er í raun liður í mótmælum Náttúruverndarsamtakanna gegn aðgerðarleysi stjórnvalda, sem heimila þessar veiðar, þrátt fyrir niðurstöður um að dýravelferð sé ekki sinnt,“ segir Védís Eva Guðmundsdóttir lögfræðingur. 

Samtökin telji að leyfisveitingin samrýmist ekki evrópskum reglum um velferð dýra og matvælaöryggi.

„Ásamt því að íslenska ríkið sé ekki að virða skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu og EES-löggjöf um kolefnislosun.“

Þannig að þið eruð bókstaflega að skoða alla þætti sem mögulega gætu verið að?

„Við teljum allavega ljóst að bæði dýravelferð, matvælaöryggi og loftslagsskuldbindingum sé teflt í hættu með því að heimila þessar veiðar.“

Óskað hefur verið eftir flýtimeðferð málsins hjá ESA, þar sem hvalveiðar ættu að hefjast innan fárra vikna.

„Ef að matvælaráðherra bregst ekki við, þá vonum við að eftirlitsstofnun EFTA, sem sinnir þessu eftirliti líka gagnvart Íslandi, muni gera það skjótt,“ segir Védís.  



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×