Mótmælendur ætla hittast klukkan fjögur í dag á Skólavörðustíg og munu ganga þaðan saman að Arnarhóli. Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera og skipuleggjandi mótmælanna, segir mótmælin til komin vegna niðurstöðu skýrslu Matvælastofnunar.
„Þær eru hryllilegar þessar aðferðir sem eru notaðar við að veiða hvali og það er ekki boðlegt okkar samfélagi að við séum að leyfa það að það sé verið að murka lífið úr hvölum klukkutímum saman. Þetta brýtur á öllum þeir dýra velferðarlögum sem við höfum og okkur þykir ótrúlega einkennilegt að það eigi að leyfa þessu að viðgangast í sumar eftir að þessi skýrsla er komin út. Við viljum bara að þetta verði stoppað,“ segir Valgerður.
Vel hægt að afturkalla veiðileyfið
Matvælaráðherra hefur sagt skýrsluna vekja upp margar spurningar um hvalveiðar. Meðal annars hvort endurskoða þurfi hvort atvinnugreinin tilheyri fortíðinni frekar en framtíð. Ekki sé þó hægt að afturkalla veiðileyfi fyrir þetta sumar. Valgerður gefur lítið fyrir þær skýringar.
„Við og þeir lögfræðingar sem hafa tjáð sig um málið sem eru ekki innan vébanda matvælaráðuneytisins hafa sagt að þetta sé bara ekki rétt. Það er vel hægt að afturkalla þetta veiðileyfi vegna þess að lög eru brotin. Og við förum fram á það að hér sé farið eftir lögum og að þetta sé stöðvað.“
Friðsæl og fjölskylduvæn mótmæli
Valgerður segist ekki skilja hvers vegna það séu lög í landinu ef hægt sé að brjóta þau án afleiðinga. „Það er mjög skýrt að þarna eru dýravelferðarlög brotin og það er mjög skýrt í hvalveiðilögum og dýravelferðarlögum að það eru viðurlög við þeim brotum,“ segir hún.
Valgerður segir lögreglu meðvitaða af mótmælunum og að hún þurfi engar áhyggjur að hafa. Þetta verði friðsæl og fjölskylduvæn mótmæli. Tímasetningin á þeim sé þó engin tilviljun en mótmælin hefjast á sama tíma og fyrstu þjóðarleiðtogarnir mæta í Hörpu, klukkan 16 í dag. „Þetta er akkúrat á þeim tíma sem leiðtogar munu vera að koma fram hjá Arnarhóli í bílaröð og við völdum þennan tíma þess vegna. Til að ná augum og eyrum þeirra kannski svona rétt á meðan þau eiga leið fram hjá,“ segir Valgerður sem vonast til að sjá sem flesta síðdegis í dag.