Lífið

Hildur endur­heimti hljóð­færið

Árni Sæberg skrifar
Hildur er hæstánægð með að hafa endurheimt dórófóninn sinn.
Hildur er hæstánægð með að hafa endurheimt dórófóninn sinn. Twitter/Hildur Guðnadóttir

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir hefur endurheimt einstakt hljóðfæri, sem stolið var þegar brotist var inn á heimili hennar í Berlín í fyrradag. Hljóðfærið, sem minnir á selló og er kallað dórófónn í höfuðið á hönnuði þess Halldóri Úlfarssyni, vakti heimsathygli árið 2020 þegar Hildur notaði það í tónlist stórmyndarinnar Joker.

Hildur greindi frá því á laugardaginn að brotist hefði verið inn til hennar og hljóðfærinu stolið. 

„Einhver braust inn og stal hljóðfærinu mínu. Það hefur gífurlegt tilfinningalegt gildi fyrir mig en er einskis virði fyrir þann sem er með það núna,“ sagði Hildur í færslu á Twitter.

Hildur útskýrði hvers vegna hljóðfærið er verðlaust fyrir þjófinn. Það sé ónothæft, rafmagnið í því virki ekki því það vantar magnara og fleira í það.

„Hjálpið mér að finna það!“ sagði Hildur í lok færslunnar og óskaði eftir því að fólk deildi henni áfram.

Í dag deildi Hildur þeim gleðifregnum að hún hefði endurheimt dórófóninn:

„Takk kærlega allir sem hjálpuðu til við að dreifa skilaboðunum. Það virkaði eins og fyrir kraftaverk!“ segir Hildur.


Tengdar fréttir

Brotist inn til Hildar

Brotist var inn til óskarsverðlaunahafans Hildar Guðnadóttur í Berlín. Hildur segir innbrotsþjófinn hafa stolið hljóðfæri sem hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir hana en sé verðlaust fyrir þjófinn. Hún óskar eftir hjálp við að finna hljóðfærið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×