Innlent

Breyta aðferðafræði við útrýmingu riðuveiki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Riðan í Miðfirði í Húnaþingi vestra er mikið áfall fyrir alla sveitina enda hafa margir í sig og á í verkefnum tengdum sauðfjárrækt.
Riðan í Miðfirði í Húnaþingi vestra er mikið áfall fyrir alla sveitina enda hafa margir í sig og á í verkefnum tengdum sauðfjárrækt. vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur fallist á tillögu yfirdýralæknis um breytta aðferðafræði við útrýmingu riðuveiki. Tillagan hefur verið kynnt í ríkisstjórn, en hún felst í því að markvisst verði unnið að hraðari ræktun riðuþolins sauðfjársstofns á ræktunarsvæðum sem eru skilgreind sem áhættusvæði.

Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins. Kindum í hundraðatali var slátrað í Húnaþingi vestra fyrr í mánuðnum. Vandræði voru með förgun fjárins þar sem brennsluofn til aðgerðanna var ekki virkur og erfiðlega gekk að fá verktaka til að urða. Þá voru deilur uppi um urðunarstað.

Samkvæmt greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands, sem unnin var að beiðni yfirdýralæknis, er unnt að hraða mjög ræktun fyrir verndandi arfgerðum með markvissum arfgerðargreiningum. Með því að ráðast í þessa vinnu minnka líkur á riðusmiti, með tilheyrandi kostnaði fyrir einstaklinga og afleiddum áhrifum á samfélög.

Tillagan felst einnig í því að Matvælastofnun yrði heimilt að undanskilja frá niðurskurði fé sem sýnt er fram á að beri verndandi arfgerð. Því fé yrði því haldið í einangrun á viðkomandi jörð. Á þennan hátt má rækta upp fjárstofn með verndandi arfgerð á riðusvæðum samhliða því að styrkja sjúkdómavarnir.

„Stjórnvöld munu gera það sem þarf til að styðja bændur við að rækta upp verndandi arfgerðir gagnvart riðu. Samkvæmt tillögunni verða yfir 80% ásetts fjár á mestu áhættusvæðunum ólíkleg til að veikjast af riðu eftir fimm ár og þar af leiðandi hverfandi líkur á niðurskurði,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í tilkynningu. 

„Til að kveða megi niður þann vágest sem riðuveikin er þarf gott samstarf allra aðila, fjármögnun og afkastagetu við greiningar. Stefnt er að því að greina megi árlega 15 til 40 þúsund fjár og með þessum aðgerðum munu líkur á stórfelldum niðurskurði minnka hratt.“

Samkvæmt greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands nemur kostnaður við fyrrnefndar aðgerðir 567 milljónum á næstu 7 árum og verður sú fjármögnun tryggð.


Tengdar fréttir

Léttir að þessum kafla sé lokið

Riðusmitað fé sem var aflífað á bænum Syðri-Urriðaá á þriðjudag var loks urðað í dag eftir miklar deilur um staðsetningu. Sveitarstjóri segir það létti að þessum kafla sé lokið, þó að enginn sé sáttur við urðun. Nú þurfi að safna kröftum fyrir næsta fasa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×