Innlent

Skólar á Akur­eyri og Suður­nesjum einnig undir smá­sjá ráð­herra

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, skipaði starfshópinn sem skilaði tillögunum um að kanna skyldi mögulega sameiningu skólanna.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, skipaði starfshópinn sem skilaði tillögunum um að kanna skyldi mögulega sameiningu skólanna. Vísir/Arnar

Stýrihópur sem mennta- og barnamálaráðherra skipaði í síðustu viku lagði fram að skólameistarar Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keilis - miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs myndu hefja samtal um sameiningu eða aukið samstarf. Sama á við Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri. 

Líkt og greint var frá hér á Vísi í gær fóru fram hitafundir í bæði Kvennaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum við Sund þar sem rætt var um mögulega sameiningu þeirra. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru starfsmenn beggja skóla ekki sérstaklega ánægðir með hugmyndina. Einnig var greint frá mögulegri sameiningu Tækniskólans og Flensborgarskólans, en sú hugmynd hefur verið mun lengur í deiglunni.

Í tilkynningu frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu segir að það séu ekki einu mögulegu sameiningarnar. Einnig var lagt til að skoðað yrði aukið samstarf eða mögulega sameiningu Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS) og Keilis annars vegar, og Menntaskólans á Akureyri (MA) og Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) hins vegar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur ekki til að sameina skólana á Akureyri, heldur einungis skoða aukið samstarf milli þeirra um fagleg og rekstrarleg málefni. 

Stýrihópurinn var skipaður af Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra og er markmið hópsins að efla framhaldsskóla á landinu. Var hópnum falið að leggja fram tillögur að framtíðarskipulagi til að auka gæði náms og bregðast við breytingum í umhverfi skólanna. 

„Skólastjórnendur munu vinna með stýrihópnum að gerð skýrslu um kosti og galla þessara sviðsmynda og leggja fyrir mennta- og barnamálaráðherra fyrir lok maí. Í störfum hópsins verður haft samráð við fulltrúa nemenda, kennara og starfsfólk skólanna og aðra hagaðila. Niðurstaða viðræðna mun ekki hafa áhrif á skipulag eða innihald náms á komandi skólaári hjá nemendum og starfsfólki skólanna og heldur ekki hjá þeim nýnemum sem innritast í skólana í vor,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×