Innlent

Þrjú þúsund evrur fyrir að yfir­gefa landið áður en frestur er liðinn

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Dómsmálaráðuneytið hefur lagt fram drög að reglugerð um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför en drögin hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Um er að ræða breytingar á þeirri fjárhagsaðstoð sem hælisleitendur sem hafa fengið synjun hér á landi eiga rétt á en slík fjárhagsaðstoð hefur staðið fólki til boða um árabil.

Breytingunum er ætlað að skapa aukinn fjárhagslegan hvata til að útlendingar hlíti endanlegri niðurstöðu stjórnvalda um að yfirgefa landið enda teljist viðkomandi vera á landinu í ólöglegri dvöl, eins og segir í skýringum með reglugerðinni í samráðsgátt.

Þá er í nýju reglugerðinni sú klausa, að ef útlendingur ákveður að yfirgefa landið áður en frestur til sjálfviljugrar heimfarar er liðinn, hækkar umræddur styrkur. Þannig getur fullorðinn einstaklingur fengið allt að 3000 evrur, eða um 450 þúsund íslenskar ef hann ákveður að fara frá landinu áður en búið er að úrskurða í máli hans.

„Nýrri reglugerð er ætlað að stuðla að aukinni samvinnu milli stjórnvalda og þeirra útlendinga sem ber að yfirgefa landið,“ segir meðal annars í skýringum ráðuneytisins. „Þannig muni flutningum í fylgd lögreglu fækka og þeim fjölga sem kjósa sjálfviljuga heimför. Gert er ráð fyrir að slíkt leiði af sér töluverðan sparnað fyrir ríkissjóð enda eru flutningar í fylgd lögreglu kostnaðarsamir,“ segir ennfremur. 

Frestur til að skila umsögnum um reglugerðina er til 9. maí næstkomandi.

Uppfært klukkan 09:42:

Dómsmálaráðuneytið sendi í morgun frá sér tilkynningu þar sem segir að fyrir mistök hafi eldri drög að umræddri reglugerð verið birt í samráðsgátt í gær. Þau mistök hafa nú verið leiðrétt og hefur fréttinni verið breytt til samræmis við það. Helsti munurinn liggur í því að þær fjárhæðir sem hælisleitendum standa til boða eru nokkuð lægri en í upphaflegu fréttinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×