Lífið

Segir að Ís­lendingar elski að vera naktir í náttúrunni

Máni Snær Þorláksson skrifar
Rainn Wilson kom hingað til lands síðasta sumar og segist hafa lært heilmikið í þeirri ferð.
Rainn Wilson kom hingað til lands síðasta sumar og segist hafa lært heilmikið í þeirri ferð. Getty/Theo Wargo

Bandaríski leikarinn Rainn Wilson var gestur Jimmy Fallon í The Tonight Show í gær. Þar ræddi hann meðal annars um ferð sína hingað til lands í tengslum við gerð nýrra sjónvarpsþátta. Hann sagði meðal annars að Íslendingar væru í miklum tengslum við náttúruna og að þeir elski að vera naktir í henni.

„Við erum með fullt af frægu fólki sem ferðast um heiminn að smakka góðan mat en ég er að ferðast um heiminn og leita að hamingjunni,“ sagði Wilson um nýju sjónvarpsþættina sem nefnast Rainn Wilson and the Geography of Bliss.

Fallon spurði þá Wilson hvert hann hafi ferðast við gerð þáttanna og Wilson sagðist meðal annars hafa farið til Íslands. „Hvað lærðirðu á Íslandi?“ spurði Fallon þá. Wilson sagði þá að íslenska þjóðin væri ein sú hamingjusamasta í heimi.

„Hygge,“ sagði Fallon í kjölfarið og opinberaði þar með þekkingarleysi sitt á tungumálum Norðurlandanna. Wilson var þó skarpari og sagði að hugtakið „hygge“ væri í raun danskt - eða að minnsta kosti frá einhverju öðru landi í Skandinavíu.

Eftir það fór Wilson yfir kynni sín af íslensku þjóðinni:

„Íslendingar eru með magnaða tengingu við náttúruna og þeir elska að vera í náttúrunni. Þeir elska að vera naktir í náttúrunni.“

Þá sagði Wilson að „enginn á Íslandi“ trúi á guð. „En áttatíu prósent þeirra trúa á álfa, í alvörunni. Þau trúa á litlar dularfullar skógarverur og þau eru mjög hamingjusöm. Ég lærði fullt.“

Eftir það var sýnt brot úr þætti Wilson þar sem hann fer til Íslands. Brotið er í lok viðtalsins sem sjá má í spilaranum hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×