Innlent

Hjörtur How­ser er látinn

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Hjörtur var fjölhæfur og vinsæll hljómborðsleikari.
Hjörtur var fjölhæfur og vinsæll hljómborðsleikari.

Tónlistarmaðurinn Hjörtur Howser lést í gær, 61 árs að aldri. Hjörtur varð bráðkvaddur við Gullfoss en hann starfaði sem leiðsögumaður síðustu ár. Aðstandendur Hjartar greina frá þessu í dag.

Hjörtur var hljómborðsleikari og lék með mörgum og ólíkum hljómsveitum í gegnum tíðina. Meðal annars Grafík, Mezzoforte, Fræbblunum, Kátum piltum og Vinum Dóra. Einnig lék hann undir hjá Ladda og var tónlistarstjóri hjá honum.

Hjörtur nam kvikmyndatónsmíðar í Kaliforníu og raftónsmíðar í Stokkhólmi. Samdi hann tónlist við margar kvikmyndir og sjónvarpsþætti, svo sem Heilsubælið í Gervahverfi og Pappírs Pésa.

Þá kenndi hann nemendum á hljómborð hjá Námsflokkum Hafnarfjarðar og gaf út kennslubækur í samvinnu við sömu stofnun.

„Elsku pabbi okkar og bróðir Hjörtur Howser yfirgaf þessa jarðvist snögglega við Gullfoss í gær. Hann kvaddi við það sem honum fannst skemmtilegast - að sýna ferðamönnum fallega landið okkar. Við söknum hans sárt og sorgin er þung,“ segir í yfirlýsingu fjölskyldunnar,  Óskars Jarls, Odds Ólafs og Deliu Howser.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×