Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem farið er yfir verkefni hennar frá klukkan 17 í gær þar til klukkan fimm í nótt.
Tilkynnt var um nokkrar líkamsárásir, þar af eina í heimahúsi. Fór lögregla á vettvang og ræddi við aðila málsins.
Lögreglu á lögreglustöð 4, sem sér um Grafarvog, Mosfellsbæ og Árbæ, var tilkynnt um tvo menn í annarlegu ástandi sem gengu á milli bifreiða og virtust vera að reyna að komast yfir verðmæti. Lögreglan ræddi við mennina sem voru svo handteknir með verðmæti sem lögregla telur vera þýfi. Voru þeir því vistaðir í fangaklefa.
Þá var á sömu stöð tilkynnt um þjófnað á töluverðu magni af eldsneyti úr tveimur bifreiðum. Ekki kemur fram hvort þjófarnir hafi fundist.