Innlent

Gera ráð fyrir að ferðin til Akur­eyrar taki sólar­hring

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Unnið er að því að dæla olíu frá skipinu.
Unnið er að því að dæla olíu frá skipinu. Landhelgisgæslan

Búist er við því að síðar í dag verði hægt verði að taka flutningaskipið Wilson Skaw, sem strandaði í Húnaflóa á þriðjudag, í tog til Akureyrar. Unnið er að því að dæla olíu frá skipinu.

Í samtali við fréttastofu lýsir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, því hvernig olíunni er dælt yfir í Freyju, varðskip Landhelgisgæslunnar, en dælingin hófst í gær eftir að búið var að koma fyrir slöngum á milli skipanna í Steingrímsfirði.

„Við gerum sömuleiðis ráð fyrir því að bolskoðun kafara fari fram í dag, til þess að meta skemmdir. Síðan er sömuleiðis verið að sjóða fyrir tvö göt á skipinu, annars vegar í lest skipsins og síðan í vélarrúmi,“ segir Ásgeir.

Þegar þeirri vinnu lýkur er gert ráð fyrir að skipið verði tekið í tog til hafnar á Akureyri, sem gæti orðið í kvöld. Ferðin gæti tekið um sólarhring. Það fari þó eftir veðri og sjólagi.

„Að óbreyttu gerum við ráð fyrir því að seinna í dag hefjumst við handa við að flytja skipið inn á Akureyri.“

Og þegar það kemur þangað, verður ykkar aðkomu að málinu þá lokið?

„Já. Þá afhendum við bara eigendum skipsins skipið. Aðkomu Landhelgisgæslunnar er lokið þegar skipið kemur til hafnar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×