Innlent

Hand­tekinn fyrir að sveifla hnífi í mið­borginni

Kjartan Kjartansson skrifar
Í mörg horn var að líta hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt.
Í mörg horn var að líta hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglumenn handtóku mann sem sveiflaði hnífi í miðborg Reykjavíkur. Hann er grunaður um vopnalagabrot og var vistaður í fangaklefa lögreglunnar í þágu rannsóknar málsins í nótt.

Ekki kemur fram hvort maðurinn ógnaði einhverjum með hnífnum í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir gærkvöldið og nóttina.

Annars staðar í miðborginni var óskað eftir aðstoð lögreglu á veitingahúsi en þar neitaði maður að borga reikning sinn. Maðurinn óskaði sjálfur eftir aðkomu lögreglu. Hann var fluttur á lögreglustað þar sem hann var upplýstur um að hann hefði verið kærður fyrir fjársvik. Honum var sleppt að svo búnu.

Í Kópavogi fékk lögregla tilkynningu um að bifreið hefði verið eki á hús. Við höggið hafði bifreiðin sjálf hringt í neyðarnúmerið 112. Minniháttar eignatjón er sagt hafa orðið.

Þá höfðu lögreglumenn afskipti af manni sem tilkynnt var um að stundaði veiðiþjófnað í á í Kópavogi. Manninum var kynnt að hann mætti ekki veiða í ánni. Hann var hins vegar ekki með neinn afla og því var hann laus allra mála eftir tiltal lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×