Innlent

Hótaði að myrða börn lögregluþjóns

Árni Sæberg skrifar
Hótunarbrot mannsins voru framin á lögreglustöðinni á Selfossi.
Hótunarbrot mannsins voru framin á lögreglustöðinni á Selfossi. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á fertugsaldri var á dögunum dæmdur til níutíu daga óskilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað tveimur lögregluþjónum líkamsmeiðingum og börnum þriðja lögregluþjónsins lífláti og líkamsmeiðingum.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa viðhaft hótanirnar í garð laganna varða á meðan hann fékk að dúsa í fangageymslu á lögreglustöðinni að Hörðuvöllum á Selfossi í desember árið 2021.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust og dómari taldi ekki ástæðu til þess að draga játningu hans í efa. Hann lauk því málinu án aðalmeðferðar, líkt og heimilað er í lögum um meðferð sakamála.

Í dóminum er farið ítarlega yfir langan sakaferil mannsins, en hann nær aftur allt til ársins 2003. Maðurinn hefur hlotið fjöldan allan af refsidómum, nú síðast árið 2022 eða eftir að brot það sem hann var nú dæmdur fyrir var framið og honum því dæmdur hegningarauki við fyrri dóm.

„Af framansögðu er ljóst á ákærði á langan og samfelldan sakarferil að baki. Þá hefur hann í tvígang áður sætt refsingu fyrir ofbeldisbrot, þar af öðru sinni vegna brots gegn valdstjórninni, auk þess sem hann hefur áður sætt refsingu vegna hótana,“ segir í dóminum.

Með vísan til þess var refsing mannsins hæfilega ákveðin níutíu daga óskilorðsbundin fangelsisvist.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×