Innlent

Gufu­baðs­klúbbarnir í Nes­kaup­stað sjá fram á gjald­skrár­hækkun

Atli Ísleifsson skrifar
Alls eru átta gufubaðsklúbbar starfandi í Neskaupstað. Fimm þeirra hittast alla jafna utan hefðbundins opnunartíma.
Alls eru átta gufubaðsklúbbar starfandi í Neskaupstað. Fimm þeirra hittast alla jafna utan hefðbundins opnunartíma. Fjarðabyggð

Svokallaðir „gufubaðsklúbbar“ sem starfandi eru í Neskaupstað sjá fram á að dýrara verði fyrir þá að hittast utan hefðbundins opnunartíma sundlaugarinnar í bænum. Átta slíkir klúbbar eru nú starfræktir í Neskaupstað.

Magnús Árni Gunnarsson, deildarstjóri íþróttamála- og íþróttamannvirkja hjá Fjarðabyggð, sendi á dögunum inn minnisblað til íþrótta- og tómstundanefndar sveitarfélagsins þar sem hann leggur til að verð til gufubaðsklúbbanna verði hækkað úr 4.890 krónur í 8.000 krónur fyrir hvert skipti utan hefðbundins opnunartíma.

Magnús Árni segir í samtali við Vísi að margra áratuga hefð sé fyrir gufubaðsklúbbunum í Neskaupstað þar sem hópar hittast og fara í gufu og heitan pott. Af þeim átta klúbbum sem séu starfandi í Neskaupstað hittast fimm utan hefðbundins opnunartíma.

Sundlaugin í Neskaupstað nefnist Stefánslaug.Fjarðabyggð

Nær ekki upp í kostnað

Magnús Árni segir að þar sem sundlaugum sé skylt að hafa eftirlit með fólki sem stunda heita potta eða gufubað þá sé núverandi gjald ekki að ná upp í kostnað, það er í þau skipti sem klúbburinn mætir eftir lokun. Hann segir að viðvera starfsmanns sé í kringum einn og hálfan tíma vegna klúbbanna.

Hann segir rekstur sveitarfélaga erfiðan um þessar mundir og krafa sé gerð um aðhald. „Í stað þess að láta slíkt bitna á starfsfólki þá leggjum við til að hækka verðið. Átta þúsund krónur er enn mjög sanngjarnt ef mæting er góð í klúbbnum.“

Fallegt og skemmtilegt

Magnús segir mikla hefð vera fyrir gufubaðsklúbbana í bænum. „Þetta er félagsskapur sem hefur bara myndast og haldist. Einn klúbburinn hefur til dæmis verið virkur í um þrjátíu ár. Það er mjög skemmtilegt og fallegt að sjá þetta. Það er mestmegnis fólk í eldri kantinum í þessum klúbbum en það er alls ekkert algilt,“ segir Magnús.

Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum á dögunum að vísa tillögu Magnúsar um hækkunina til næstu fjárhagsáætlunargerðar og heildarendurskoðunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×