Innlent

Á­kærður fyrir smygl á „öflugasta hug­breytandi vímu­efninu“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregla hefur um nokkurt skeið haft miklar áhyggjur af svokölluðum DMT pennum.
Lögregla hefur um nokkurt skeið haft miklar áhyggjur af svokölluðum DMT pennum.

Fertugur reykvískur karlmaður sætir ákæru fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 5,4 kílóum af dímetýlryptamíni (DMT) til landsins. Efnin voru flutt til landsins með póstsendingu.

Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjaness þar sem það var þingfest á dögunum. Innflutningurinn átti sér stað í ágúst 2021. Tollverðir fundu og lögðu hald á efnin í vörugeymslu USP/express ehf. á Keflavíkurflugvelli. Þau voru í fimm pakkningum.

Fram kemur í ákæru að efnin hafi verið með 1,9 prósent styrkleika sem svari til 2443 neysluskammta. Talið er að karlmaðurinn hafi ætlað að selja efnin hér á landi í ágóðaskyni.

DMT hefur verið lýst sem sterku ofskynjunarlyfi sem svipar til LSD og ofskynjunarsveppa. Annars vegar er hægt að vinna efnið úr plöntum eða búa það til. Fjallað var um efnið í fréttum Stöðvar 2 árið 2020.

Annar karlmaður sætir ákæru fyrir innflutning á sama efni. Hann var gripinn með 32 kíló af efninu við komuna til landsins á Keflavíkurflugvelli árið 2020. Málið er sömuleiðis til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjaness.

Þrír karlmenn hlutu að mestu óskilorðsbundna dóma í nóvember 2021 fyrir að hafa staðið að framleiðslu á DMT árið 2020. Í kröfu lögreglu um gæsluvarðhald í því máli lýsti Lögreglustjórinn á Suðurnesjum DMT sem „öflugasta hugbreytandi vímuefnið“ og að „hættueiginleilkar DMT séu miklir“.

Dómari í málinu fann að því að ekki hefði verið aflað álits eða mats óháðra sérfræðinga varðandi eiginleika DMT. Samantekt lögreglu um efnið hefði ekki sama vægi og mat óháðra sérfræðinga.

Þórarinn Ævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri IKEA, lýsti í viðtali við Vísi í janúar hvernig hann hefði sprengt sig frá höfuðkvölum, þunglyndi og lyfjafíkn með hjálp hugvíkkandi efna, á borð við DMT.


Tengdar fréttir

Sprengdi sig frá höfuð­kvölum, þung­lyndi og lyfja­fíkn með hjálp hug­víkkandi efna

Þórarinn Ævarsson, landsþekktur athafnamaður, segir annus horriblis nú að baki. Þórarinn fór í dýpstu dali, svartnættið eitt blasti við og hann sá aðeins eina leið út. Nefnilega þá að ljúka þessu sjálfur. Þórarinn var orðinn háður ópíóðalyfjum, þjáðist af heiftarlegum höfuðverkjaköstum og þunglyndi en með hjálp hugvíkkandi efna segist Þórarinn hafa öðlast nýtt líf.

Gripinn með fullar ferðatöskur af ofskynjunarefnum

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa fyrir rúmum tveimur árum verið gripinn með rúmlega 32 kíló af sterku ofskynjunarlyfi við komuna til landsins. Mál hans verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Grunaðir um fram­leiðslu á hættu­legu of­skynjunar­lyfi

Þrír menn sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald í gær í tengslum við umfangsmikla rannsókn lögreglu á höfuðborgarsvæðinu eru grunaðir um framleiðslu á ofskynjunarlyfinu DMT. Ríkisútvarpið greinir frá þessu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×