Innlent

Ökumaðurinn úrskurðaður látinn

Máni Snær Þorláksson skrifar
Bíll fór í höfnina í Vestmannaeyjum í kvöld.
Bíll fór í höfnina í Vestmannaeyjum í kvöld. Aðsend

Bíll fór í höfnina við bryggju í Vestmannaeyjum í kvöld. Einn ökumaður var í bílnum og tókst að ná honum upp úr sjónum. Endurlífgunartilraunir hófust þegar í stað en lögreglan segir þær ekki hafa borið árangur. 

Mbl.is greindi fyrst frá því að bíllinn hafi endað í höfninni. Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, sagði í samtali við fréttastofu að tekist hafi að ná ökumanninum upp úr höfninni og að unnið hafi verið að endurlífgun.

Í færslu sem lögreglan í Vestmannaeyjum birtir á Facebook-síðu sinni kemur fram að endurlífgunartilraunir hafi ekki borið árangur, ökumaðurinn hafi verið úrskurðaður látinn. Þá segir lögreglan að tilkynning um að bíllinn hafi endað í höfninni hafi borist frá skipverjum á bát sem var á leið inn til hafnar. 

„Greiðlega gekk að ná ökumanninum upp, sem var einn í bílnum. Lífgunartilraunir hófust þegar í stað en báru ekki árangur og var ökumaðurinn úrskurðaður látinn,“ segir í færslunni. Rannsókn stendur nú yfir af tildrögum slyssins.

Lögreglan þakkar þá öllum viðbragðsaðilum og vottar aðstandendum ökumannsins samúð. 

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×