Innlent

Rífa niður Egils­staði og endur­byggja í mið­bænum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Egilsstaðir þurfa að víkja fyrir viðbyggingu Grunnskólans í Hveragerði.
Egilsstaðir þurfa að víkja fyrir viðbyggingu Grunnskólans í Hveragerði. Vísir/Sævar Þór Helgason

Húsið Egilsstaðir hefur verið í eigu Hveragerðis síðan árið 1937. Nú stendur til að rífa húsið niður og endurbyggja það í miðbæ Hveragerðis til þess að gera pláss fyrir viðbyggingu Grunnskólans í Hveragerði. 

Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar Hveragerðis. Þar er vísað í bréf Minjastofnunar um að húsið hafi varðveislugildi og því kjörið að endurbyggja það í elsta hluta miðbæjar Hveragerðis. 

Húsið var keypt árið 1937 þegar kennsla, heimavist og skólahald í Ölfushreppi var sameinað á einn stað. Stendur það við Skólamörk 6.

Ekki er unnt að flytja húsið í heilu lagi þar sem fótstykki og veggstoðir eru fúnar í húsinu sem rekja má til steypukápunnar. Því þarf að endurbyggja burðargrind þess og klæðningar að mestu leyti úr nýju efni. 

„Vegna ástands hússins er ljóst að ekki er hægt að varðveita það í heild og í bréfi Minjastofnunar frá 30. mars sl. gerir stofnunin ekki athugasemdir við að húsið verði rifið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum,“ segir í bókun bæjarstjórnar. 

Bærinn hefur gert nákvæmar uppmælingar á húsinu og það verið ljósmyndað en þær upplýsingar munu nýtast við endurgerð þess. Sýnishorn verða varðveitt af gólfborða, vegg- og loftklæðingu, heillegum gluggum og stólpum. 

„Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkir því að húsið Egilsstaðir verði tekið niður með framangreindum skilyrðum um varðveislu sýnishorna og upprunalegra hluta hússins sem má hafa til hliðsjónar og nota þegar húsið verður endurbyggt. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að hefja deiliskipulagsvinnu á miðbæjarsvæði og Breiðumörk þar sem fest verði í skipulag að Egilsstaðir verði endurbyggðir í miðbæ Hveragerðisbæjar,“ segir í fundargerðinni. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×