Innlent

Um­boðs­maður krefur Bjarna frekari svara

Árni Sæberg skrifar
Skúli Magnússon er Umboðsmaður Alþingis.
Skúli Magnússon er Umboðsmaður Alþingis. vísir/vilhelm

Umboðsmaður Alþingis hefur ritað fjármála- og efnahagsráðherra bréf þar sem farið er fram á svar við því hvernig fyrra svar hans samrýmist tilkynningu ráðuneytisins um birtingu vinnuskjala ríkisendurskoðanda

Umboðsmaður Alþingis óskaði á dögunum eftir svörum Bjarna Benediktssonar vegna tilkynningar á vef ráðuneytis hans þess efnis að ólöglegt væri að gera vinnuskjöl ríkisendurskoðanda opinber.

Kveikjan að tilkynningu ráðuneytisins var umfjöllum um félagið Lindarhvol. Ráðuneytið vísaði til nokkurra úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál til merkis um að nefndin hafi úrskurðað um það mörgum sinni að ólögmætt væri að opinbera vinnuskjöl ríkisendurskoðanda.

Þá kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins að það telji sér skylt að hlíta úrskurðum nefndarinnar og vilji eða afstaða ráðherra, Bjarna Benediktssonar, og ráðuneytisins skipti engu máli í því samhengi.

Í tilkynningu á vef Umboðsmanns segir að af svari ráðuneytisins við fyrri fyrirspurn umboðsmanns verði hins vegar ekki annað ráðið en að það telji að birta megi vinnuskjöl að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ársreikninga, sem vísað hafi verið til í tilkynningunni, girði því ekki alfarið fyrir slíka birtingu.

„Get ég því ekki séð að samræmi sé að þessu leyti á milli þess sem fram kemur í umræddri tilkynningu ráðuneytisins og því sem greinir í áðurröktu svari þess til mín,“ segir í nýju bréfi Umboðsmanns til Bjarna Benediktssonar.

Af þessu tilefni sé óskað eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið líti svo á að tilkynning þess 9. mars sé í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í svari þess. Sé sú raunin sé óskað eftir nánari skýringum á því. Einnig hvort komið hafi til skoðunar hjá ráðuneytinu að breyta tilkynningunni til samræmis við það sem fram kemur í svarinu. Ef ekki þá sé óskað skýringa á því og svörum fyrir 12. apríl næstkomandi.

Bréf Umboðsmanns til fjármálaráðherra má lesa hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×