Óhætt er að segja að fjölskyldan í Lækjasmára hafi haft það skítt síðustu daga; á þriðjudagskvöld byrjaði skólp að flæða upp um niðurföll íbúðar þeirra og kalla þurfti til slökkvilið til að dæla vatninu út.
Fjölskyldan var langt komin með að rífa næstum allt út úr jarðhæð íbúðarinnar þegar fréttastofu bar að garði í dag, eins og sést í meðfylgjandi frétt úr kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hvað er þetta mikið tjón heldurðu, í peningum?
„Ekki minna en 10 milljónir. Við erum nýbúin að kaupa þessa íbúð, spenntum bogann ansi hátt. Allt sem við áttum fór í þetta. Og við vitum ekki almennilega hvernig við eigum að fjármagna hreinsunina eða neitt í augnablikinu, þetta er bara algjört „clusterfuck“,“ segir Heiðrún Berglind Finnsdóttir, eigandi íbúðarinnar í Lækjasmára.

Heiðrún segir að hamfarirnar megi rekja til stíflu í röri talsvert frá húsinu og húseigendatrygging nái því ekki utan um tjónið. Heiðrún telur Kópavogsbæ sjálfan bótaskyldan - en þar hafi viðbrögð verið alltof hæg.
„Klárlega myndi maður vilja að bærinn myndi koma og segja heyrðu, fokk, við gerðum skissu. Við komum og hjálpum ykkur á meðan við bíðum eftir tryggingafélaginu, að það sé eitthvað neyðarteymi eða eitthvað svoleiðis,“ segir Heiðrún.

Hún segir myglu þegar byrjaða að myndast og þau hafi því ekki getað beðið með niðurrif.
„Við höfum ekki tíma til að bíða eftir að bærinn og tryggingafélögin ákveði sig hver ætli að borga brúsann.“
Kópavogsbær hafnar því í tilkynningu sem hann sendi frá sér í dag að hafa viðurkennt ábyrgð á stíflunni. Bærinn hafnar því einnig að hafa vitað af stíflunni áður en ósköpin dundu yfir. Í gær hafi lagnir verið hreinsaðar og þær svo myndaðar til að athuga með frekari skemmdir
„Húsnæðiseigendum hefur verið bent á að tilkynna tjónið til VÍS, sem er tryggingarfélag Kópavogsbæjar. Vís tekur við tilkynningunni og leitar í framhaldi eftir upplýsingum um atvikið og metur bótaskyldu.“